150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Í þessu máli blasir við að fé hefur verið borið á ráðamenn í fjarlægu landi til þess að komast yfir lífsbjörg fátækrar þjóðar sem Íslendingar höfðu um árabil varið fjármunum og fyrirhöfn í að kenna handtök og aðferðir við sjávarútveg og voru stoltir af þeirri hjálp. Svo breytist stolt í skömm. Margir Íslendingar hafa með réttu áhyggjur af stórfelldum kaupum erlendra auðkýfinga hér á landi með þeim landkostum sem fylgja. Í Namibíu er Samherji slíkt afl, gráðugi, ríki útlendingurinn sem ásælist auðlindir almennings. Fyrirtækið óx upp hér á landi í skjóli þar sem því hefur tekist að sölsa undir sig svo mikla hlutdeild í sjávarauðlindinni okkar að óhugsandi er að sjávarútvegsráðherra hverju sinni geti sagt sig frá málefnum fyrirtækisins.

Spilling er hugarfar. Hún lýsir sér í því að sætta sig smám saman við hið óásættanlega. Hún lýsir sér í því að verða samdauna atferli sem er rangt eftir siðferðislegum og lagalegum mælikvörðum. Hún lýsir sér í þeirri hugmynd að einhver sé yfir lög og reglur og siði hafinn vegna auðs og valda. Hún lýsir sér í því að líta á annað fólk fremur sem bráð en samborgara á þessari jörð. Spilling er það þegar dyggðir víkja fyrir löstum. Spilling er líka val, sakleysið hverfur og við stöndum frammi fyrir því vali hvort við ætlum að bregðast við með því að taka á því sem opnaði augu okkar eða loka þeim aftur og verða samsek. Á þessari stundu er slík ögurstund í íslensku þjóðlífi.