150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Spillingin hefur fylgt mannkyninu um allar aldir og gerir enn og græðgin rekur menn út á foraðið eins og dæmin sýna. Þjóðir heims hafa sem betur fer í alþjóðasamstarfi með alþjóðlegum samningum unnið að því að herða löggjöf og regluverk til að koma í veg fyrir skattaskjól og peningaþvætti og aðra spillingu í viðskiptalífinu. Mér finnst því mjög jákvætt að þetta mál, þetta skammarlega mál, sé komið til saksóknara og skattrannsóknarstjóra til vinnslu. Það er mikilvægt að bregðast við svona málum strax af festu. Síðustu ár hafa verið stigin mikilvæg skref til að vinna gegn spillingu og auka gagnsæi hér í landi, t.d. hefur umgjörð fjármálakerfisins, regluverk utan um peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka o.fl. verið gjörbreytt en augljóst er að það er verk óunnið og við þurfum að gera betur.

Það kom fram í gær að spillingarmál í namibískum sjávarútvegi hafa verið til skoðunar þar í landi frá árinu 2014 og íslenskur maður er þar með stöðu uppljóstrara. Það á ekki að líða það að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki notfæri sér fátækar þjóðir þar sem oftar en ekki er undirliggjandi spilling til að komast yfir auðlindir þessara fátæku þjóða þar sem misskipting og fátækt ríkir. Það er ósiðlegt og saknæmt athæfi. Það verður aldrei hægt að útrýma spillingu og siðlausum einstaklingum. Það held ég að verði aldrei hægt að gera. En það sem við getum gert er að herða löggjöfina og regluverkið til að taka á spillingu og koma í veg fyrir að menn geti vaðið uppi þvert á öll lög og reglur í skjóli græðgi og óskammfeilni gagnvart samfélaginu. Það verðum við að gera og erum að gera.