150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hér er til umræðu spilling í samhengi við nýlega umfjöllun um úthlutun á fiskveiðikvóta í Afríkuríkinu Namibíu og aðkomu íslensks fyrirtækis að kvótaúthlutun á hafsvæði úti fyrir ströndum Suðvestur-Afríku. Málið snertir mikilvægar auðlindir lítillar þjóðar. Þetta leiðir hugann að því hversu mikilvægt það er að við stöndum vörð um auðlindir okkar fyrir ásælni öflugra ríkja, ríkjabandalaga eða alþjóðlegra auðhringja. Þetta er áminning um að við þurfum að standa vörð um allar auðlindir okkar, þar á meðal orkuauðlindirnar, eins og við reyndar ræddum allnokkuð fyrr á þessu ári.

Þetta er ekki mál sem á að reka á pólitískum vettvangi. Það þarf að gefa réttum yfirvöldum ráðrúm og vinnufrið til að vinna sína vinnu og ég treysti lögreglu og saksóknurum okkar til þess verkefnis. Á hinum pólitíska vettvangi eru sumir jafnvel tilbúnir að ganga svo langt að kalla eftir grafalvarlegum og íþyngjandi aðgerðum meðan málið er á frumstigi og setja atvinnuhagsmuni hundraða manna í uppnám.

Herra forseti. Slíkt er fallið til þess að grafa undan réttaröryggi og gerir okkur ekki betur sett á nokkurn hátt. Það er mikilvægt að við stöndum stöðugan vörð um réttarríkið og búum svo um hnútana að þeim stofnunum sem ber að rannsaka þessi mál verði bæði gefinn friður til að vinna þau í sæmilegu næði og að vel sé að þeim hlúð og þær hafi mannafla og önnur verkfæri til að sinna verkefnum sínum af fagmennsku og alúð.

Herra forseti. Það er enginn dómur fallinn og ég hvet til hófsemi í orðavali og viðbrögðum öllum. Skilaboð mín eru einföld: Menn skyldu halda ró sinni og gefa réttum yfirvöldum hér á landi ráðrúm til að rannsaka málið til hlítar.