150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þau mál sem hér hafa verið til umræðu eru þess virði að ræða í þingsölum, sérstaklega út frá almennum forsendum því að erfiðara er að ræða sértæk mál, enda er hlutverk til þess gerðra og bærra eftirlitsstjórnvalda, rannsóknaraðila, ákæruvalds og eftir atvikum dómstóla, ef mál fara þá leið, að kveða upp úr um það hvort lög hafi verið brotin og hver beri á því ábyrgð. Þessi mál virðast vera komin í eðlilegan farveg og við í þinginu verðum að vænta þess að þau fái þann framgang sem nauðsynlegt er og lög gera ráð fyrir.

Þetta mál vekur óhug. Þær upplýsingar sem fram hafa komið eru vísbendingar um alvarleg brot og mikilvægt er að á því sé tekið með réttum hætti. Þegar við veltum fyrir okkur hvert hlutverk okkar í þinginu er er það ekki, eins og fleiri hafa nefnt í dag, að rétta í málum eða komast að niðurstöðu. Hlutverk okkar er að setja hinn almenna lagaramma sem þarf að fara eftir á sviði viðskiptalífs, stjórnmála og á öðrum sviðum.

Eins og fram hefur komið í ræðum bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hefur þetta í raun verið viðvarandi viðfangsefni í langan tíma hér. Löggjöf hefur sætt miklum breytingum hvað varðar umhverfi fjármálalífs, atvinnulífsins almennt og stjórnsýslunnar, svo dæmi séu nefnd. Þrátt fyrir að við eigum enn þá eftir verkefni á því sviði getur enginn sagt annað en að löggjafarstarf undanfarinna ára, a.m.k. síðustu tíu ára, hefur miðað að því (Forseti hringir.) að færa okkur fram og lagfæra það sem gagnrýnisvert hefur verið í löggjöf okkar á þeim sviðum.