150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna þessari mikilvægu umræðu sem hér fer fram. Við þekkjum það auðvitað öll að nándin í okkar litla samfélagi er mikil sem undirstrikar svo vel mikilvægi þess að leikreglur séu skýrar, að gagnsæi sé til staðar og að við höfum skilvirkt eftirlit með starfsemi sem þeirri sem er m.a. til umræðu. Það leiðir hins vegar hugann að því hvernig við höfum staðið okkur sjálf í svo mikilvægu máli þegar kemur að þeirri atvinnugrein sem hér er til umræðu beint og óbeint, sjávarútveginum í landinu okkar.

Vissulega getum við verið stolt af íslenskum sjávarútvegi fyrir hagkvæmni, fyrir góðan rekstur, fyrir skilvirkni, en um leið hljótum við líka að velta fyrir okkur að í þessum sal höfum við um áratugaskeið glímt við sömu ágreiningsefnin án þess að fá á þeim lausn; auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ítrekaðar ráðleggingar starfshópa eftir starfshópa um tímabindingu veiðiheimilda í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, þá miklu samþjöppun sem orðið hefur í atvinnugreininni svo að samanlögð hlutdeild sumra fyrirtækja er komin langt yfir þau viðmiðunarmörk sem við settum okkur þegar fiskveiðistjórnarkerfinu var komið á fót, án þess að við því hafi verið brugðist hér. Og síðast en ekki síst að við leggjum á raunveruleg auðlindagjöld, raunverulegt gjald fyrir aðganginn, fyrir nýtingarréttinn af sameiginlegri auðlind landsmanna sem ítrekað hefur verið reynt að takast á við í þessum sal en við höfum alltaf brugðist.

Það er alveg ljóst þegar við horfum á þá miklu samþjöppun sem orðið hefur í atvinnugreininni að arðsemi hennar er með slíkum hætti að greinin sjálf væri tilbúin til að greiða mun meira fyrir nýtingarréttinn en Alþingi hefur áskilið henni að gera. (Forseti hringir.) Maður spyr sig hverju sæti að í þeirri nánd sem við tölum um í íslensku samfélagi takist okkur í þessum sal ekki að taka á þeim málum og (Forseti hringir.) tryggja að það séu almannahagsmunir sem ráði för en ekki sérhagsmunir atvinnugreinarinnar sjálfrar.