150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

spilling.

[11:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir umræðuna. Ég held að minna beri á milli hv. þingmanna í þessum málum en mörgum öðrum og þá er ég sérstaklega að vísa til þess sem hefur verið gert á undanförnum áratug, eins og ég nefndi í fyrri ræðu. Margar umbætur hafa verið gerðar, flestar í góðri samstöðu, en um leið tek ég undir það með hv. þingmanni og málshefjanda, Smára McCarthy, að við getum gert betur, ekki síst þegar kemur að hinu alþjóðlega samstarfi. Þar höfum við bætt okkur á undanförnum árum með upplýsingaskiptasamningum og mikilli vinnu innan OECD en vegna eðlis spillingarinnar, vegna þess eðlis fjármagnsins að leita til þeirra staða þar sem ljósið skín ekki, skiptir alþjóðlegt samstarf og alþjóðleg samskipti alveg gríðarlega miklu máli. Þar höfum við verið að taka okkur á en getum gert betur.

Ég tek líka undir með þeim sem tala sérstaklega um nándina í íslensku samfélagi. Við vitum öll að nándin og smæðin gerir verkefni okkar flóknara en ég vil líka segja að þegar ég var kjörin á þing árið 2007 voru engar siðareglur fyrir þingmenn. Þau mál voru ekki til umræðu. Í dag finnst okkur sjálfsagt að hafa siðareglur, ræða þær, velta því fyrir okkur hvað það þýðir að vera kjörinn fulltrúi þannig að margt hefur gerst. Ég sagði áðan að ég væri nokkuð viss um að málið sem við erum að ræða í dag hefði ekki vakið sömu viðbrögð árið 1997, svo dæmi sé tekið. Mér finnst ekki hægt að stíga fram og segja: Við lærum aldrei neitt. Það gerist aldrei neitt.

Það er ekki þannig. Ég tel að við höfum gert mjög margt gott, til að mynda árið 2016 þegar skattundanskot voru hvað mest til umræðu. Þá náðum við samstöðu í þinginu þvert á flokka um mjög miklar umbætur í þeim málum.

Það er samt mikilvægt að vera alltaf á tánum og ég nefndi áðan boðað frumvarp mitt um hagsmunaárekstra í stjórnsýslunni sem ég vonast til að geti orðið enn til að bæta þessi mál, frumvarp um vernd uppljóstrara o.fl. Við þurfum alltaf að vera (Forseti hringir.) á vaktinni og meðvituð um að við getum gert betur en ég er mjög bjartsýn eftir þessa umræðu um að við getum það.