150. löggjafarþing — 32. fundur,  14. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Þessi fjárlög sýna að við erum að ná því markmiði sem við öll ættum að stefna að á Alþingi, að láta ríkisfjármálin vinni með peningastefnu og stefnu í vinnumarkaðsmálum, nýta styrkingu innviða og auka hina opinberu fjárfestingu til að vinna gegn slaka í hagkerfinu á tímum þar sem er að kólna í hagkerfinu. Á sama tíma og við erum að tryggja efnahagslegan stöðugleika erum við að tryggja félagslegan stöðugleika, markmið sem við höfum oft talað um en ekki oft náð, enda einkennist íslensk hagsaga af gríðarlegum sveiflum. Ég tel þessi fjárlög vera miklu meira tímamótaplagg en við höfum átt að venjast lengi. Ég tel að þarna séu hinar þrjár stoðir hagstjórnarinnar að vinna saman þar sem sérstaklega er hugað að því líka að þær álögur sem eru lækkaðar nýtist hinum tekjulægstu best og við séum með félagsleg sjónarmið að markmiði í þeirri innviðauppbyggingu sem á sér stað þannig að þessi fjárlög tel ég vera góð fjárlög.