150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hæfi sjávarútvegsráðherra.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja að hv. þingmaður vísaði til skýrslu sem ég lét vinna um eflingu trausts á íslenskum stjórnmálum og stjórnsýslu. Ýmislegt hefur komið út úr þeirri vinnu, nú síðast frumvarp um vernd uppljóstrara sem var mælt fyrir í þinginu í síðustu viku og í samráðsgátt stjórnvalda í dag fer frumvarp mitt um varnir gegn hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni. Ég vonast til þess að það verði síðar afgreitt úr ríkisstjórn og hljóti afgreiðslu á þingi því að eitt af því sem bent var á í þeirri skýrslu var mikilvægi þess að halda skrá yfir svokallaða hagsmunaverði og gera grein fyrir samskiptum stjórnvalda við hagsmunaverði hvað varðar áhrif þeirra á ákvarðanir stjórnvalda. Þau mál eru því í ferli og ég sé ekki annað fyrir mér en að lokið verði við að fullnusta allar tillögurnar sem koma fram í þessari skýrslu áður en þetta kjörtímabil er úti.

Hvað varðar sérstaklega mál það sem hv. þingmaður vísar til hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra lýsti því yfir að hann muni ekki taka ákvarðanir eða koma að stjórnvaldsákvörðunum sem tengjast umræddu fyrirtæki sökum vinatengsla við fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, sem hefur raunar stigið til hliðar sem slíkur. Í þessu tilfelli eins og oft áður heyra hæfismál ekki undir reglur laganna um vanhæfi því að þær gera t.d. ekki endilega ráð fyrir því að vinatengsl skapi sjálfkrafa vanhæfi. (Gripið fram í: … en hvaða skilaboð …) Hins vegar geta ráðherrar metið hæfi sitt og hæstv. ráðherra hefur gert það með því að koma með mjög skýra yfirlýsingu um að hann muni ekki koma að ákvörðunum sem tengjast því fyrirtæki. Það er í raun og veru ekki í fyrsta sinn sem ráðherrar segja sig frá málum vegna einhvers konar tengsla sem teljast ekki endilega lagalegt vanhæfi en eru vanhæfi að þeirra mati.