150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hæfi sjávarútvegsráðherra.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það sem kom fram í máli hæstv. sjávarútvegsráðherra var að einstök mál og ákvarðanir hefðu ekki komið á hans borð sem vörðuðu þetta einstaka fyrirtæki. Þar af leiðandi hefði hann ekki sagt sig frá ákvörðunum. Hann hefur lýst þessu skýrt yfir. Sömuleiðis hlýt ég að benda á það, eins og ég benti á þegar ég lýsti yfir trausti á hæstv. ráðherra, að ég hef ekki séð nein gögn, í þeim gögnum sem hafa verið birt, sem benda til þess að hæstv. ráðherra hafi haft nokkra vitneskju um það framferði sem birtist okkur í þessum gögnum. Ég vil því biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að við kynnum okkur gögnin og tökum þá afstöðu út frá því. Ég leitaði ekki ráðgjafar Siðfræðistofnunar, hún stendur hins vegar öllum ráðherrum til boða. Það hafa allir hæstv. ráðherrar vitneskju um. En afstaða mín grundvallast á því að ekkert kemur fram í þeim gögnum sem birt voru í síðustu viku um að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi haft nokkra vitneskju um þetta mál. Ég byggi (Forseti hringir.) afstöðu mína á því sem ég sé í gögnum. Það er raunar almennt mín afstaða að byggja afstöðu mína á því sem kemur fram í gögnum.