150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

traust almennings í garð sjávarútvegskerfisins.

[15:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Fyrst um það sem hann kom að í inngangi sínum sem er traust á íslensku atvinnulífi almennt. Ég held að þetta mál geti sannarlega haft áhrif á íslenskt atvinnulíf og allar íslenskar útflutningsgreinar en ekki bara þetta eina fyrirtæki og orðspor þess. Því vil ég segja að við höfum verið að vinna mikið í því að endurskoða upplýsingalög og auka gagnsæi. Ég nefndi áðan frumvarp um hagsmunaárekstra í stjórnsýslunni. En þurfum við ekki að velta fyrir okkur hvað við getum gert betur varðandi gagnsæi þegar kemur að atvinnulífinu sjálfu og fyrirtækjum?

Eitt af því sem hefur verið rætt þar, og ég hef rætt við ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er að skoða sérstaklega þegar fyrirtæki fara yfir vissa stærð en eru eigi að síður ekki skráð á hlutabréfamarkaði, hvort ekki sé eðlilegt að gera ríkari kröfur til fyrirtækja af tiltekinni stærð þannig að þau skili upplýsingum ársfjórðungslega eins og skráð fyrirtæki á hlutabréfamarkaði þannig að ákveðið gagnsæi sé tryggt. Á þetta var m.a. bent í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fall WOW air og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er með mál á sinni þingmálaskrá þar sem boðaðar eru breytingar á þessu. Af því að þetta eru hagsmunir íslensks atvinnulífs verð ég að segja að það á að líta á það sem sóknarfæri fyrir sig að hér sé mikið gagnsæi og skýrt regluverk. Það á ekki að líta á það sem íþyngjandi heldur sem sóknarfæri.

Hvað varðar veiðigjöldin sem slík breytti núverandi ríkisstjórn þeim með þeim hætti að þau munu til að mynda skila meiru í ár en gamla kerfið sem var við lýði þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn hér. Þau skila töluvert meiru í ríkissjóð en það kerfi hefði gert og eiga að vera afkomutengd sem ég tel vera eðlilega breytu þegar veiðigjöld eru afmörkuð. Hins vegar held ég að þessari umræðu sé ekkert lokið með þeirri lagasetningu á sínum tíma þó að ég telji þessi lög umtalsvert betri en þau sem voru í gildi út af afkomutengingunni. Hins vegar er ekki lokið umræðu um hver er eðlileg hlutdeild þjóðarinnar í arðinum af nýtingu auðlinda.