150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

hagsmunatengsl.

[15:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja hæstv. ráðherra hvað honum finnist um hagsmunatengsl almennt, hvernig það sé í öðrum löndum eða um nokkuð annað sem hæstv. ráðherra var að segja í ræðustóli rétt í þessu. Ég spurði hæstv. ráðherra, rétt eins og samstarfskona mín í þingflokki Pírata spurði hæstv. forsætisráðherra, einnar spurningar sem ekki hefur enn fengist svar við: Hvaða skilaboð sendir hæstv. sjávarútvegsráðherra út í samfélagið með þessu símtali sínu? Hvaða skilaboð telur hæstv. ráðherra, horfi hann hlutlaust á það og meti, að verið sé að senda út í samfélagið þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra hringir í vin sinn Þorstein Má áður en þessi umfjöllun er birt og spyr hvernig hann ætli að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun? Hvaða skilaboð sendir þetta til þeirra sem eru með þessa fjölmiðlaumfjöllun? Hvaða skilaboð sendir það til þeirra sem vænta einhverra viðbragða frá ríkisstjórninni, að fyrstu viðbrögð sjávarútvegsráðherra séu að hringja í Þorstein Má? Hvaða skilaboð sendir þetta út í samfélagið? Ég var með aðra spurningu en það gengur bara ekkert að fá svar við þessari.