150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 190/2019 um breytingu á IX. viðauka og XIX. viðauka við EES-samninginn.

188. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar í máli nr. 188 sem hér liggur frammi og er tillaga til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins, sem fjallar um fjármálaþjónustu, og einnig XIX. viðauka sem fjallar um neytendavernd.

Nefndin hefur fengið á sinn fund hefðbundna gesti utanríkisráðuneytisins til þess að fjalla um málið en með þingsályktunartillögunni er verið að leggja til breytingar á þessum viðaukum er varða fjármálaþjónustu og neytendavernd og að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2016, sem fjallar um vísitölur sem notaðar eru sem viðmiðanir í fjármálagerningum og fjárhagslegum samningum eða til að mæla árangur fjárfestingarsjóða. Um leið breytir þessi reglugerð tilskipun frá árinu 2008 og 2014 og einnig reglugerð sambandsins frá árinu 2014.

Framsetning þessarar tillögu telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Smári McCarthy.