150. löggjafarþing — 33. fundur,  18. nóv. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019 um breytingu á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn.

273. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar í máli nr. 273 er varðar tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka EES-samningsins, um fjármálaþjónustu, og XIX. viðauka sem fjallar um neytendavernd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Gaut Sturluson frá utanríkisráðuneytinu og Guðmund Kára Kárason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta nefnda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og um leið að fella inn í samninginn tilskipun Evrópusambandsins frá 4. febrúar 2014, þ.e. tilskipun nr. 2014/17, sem fjallar um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði, og um breytingu á tilskipunum ESB frá 2008 og 2013 og reglugerð frá árinu 2010.

Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt.

Undir þetta nefndarálit rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Smári McCarthy, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir. Aðrir nefndarmenn utanríkismálanefndar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.