150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

viðbrögð ráðherra við mótmælum á Austurvelli.

[15:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég finn bæði fyrir trausti og vantrausti eins og við stjórnmálamenn gerum iðulega í okkar störfum. Þau eru umdeild og við því er ekkert að segja. Við leggjum verk okkar í dóm kjósenda, oftast nær á fjögurra ára fresti. Ég treysti mér fyllilega til að standa undir því trausti sem mér hefur verið sýnt til að gegna störfum fyrir Norðausturkjördæmi en um leið taka þátt í störfum Alþingis fyrir alla landsmenn. Ég ætla rétt að vona að störf stjórnmálamanna á Íslandi verði aldrei á þann veg að þeir verði ekki umdeildir. En ég skal verða fyrstur manna til að viðurkenna að ég hef engan mælikvarða á það sérstaklega, sem hv. þingmaður virðist hafa hér, hvenær komið er að einhverjum mörkum hvað varðar fjölda einstaklinga sem hafa ekki traust á störfum þingmanns. Ég er ekki þeirrar gerðar (Gripið fram í.) að hafa slíka talningu á reiðum höndum og þætti vænt um (Forseti hringir.) ef hv. þingmaður gæti upplýst mig um þá undratölu sem hún virðist hafa undir höndum. (HallM: … spyrja þig.)