150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu og samstarf við einkaaðila.

[15:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Við erum nokkur sem höfum komið upp í þetta ræðupúlt undanfarið og haft áhyggjur af löngum biðlistum í heilbrigðiskerfinu eins og t.d. biðlistum eftir liðskiptaaðgerðum. Við höfum gagnrýnt mjög að ekki skuli vera gerðir samningar við fyrirtæki innan lands sem geta leyst slíkar aðgerðir af hólmi í stað þess að senda fólk úr landi fyrir 2–2,5-falt það sem kostar að gera slíka aðgerð hér. Það gladdi mig því mjög að sjá í viðtali í Morgunblaðinu við hæstv. fjármálaráðherra 20. nóvember sl. að við sem höfum gagnrýnt þetta mjög eigum sálufélaga í hæstv. fjármálaráðherra. Hann er svo spurður um t.d. þessar aðgerðir og biðlista og hæstv. fjármálaráðherra segir, með leyfi forseta:

„Ég hef verið mjög gagnrýninn á þessa stöðu. Skýringar sem hafa komið frá heilbrigðisyfirvöldum eru þær að rót vandans sé að Landspítalinn ætti að geta framkvæmt aðgerðirnar, óþarfi sé að semja við þriðja aðila um framkvæmdina en að fráflæðisvandi komi í veg fyrir að hægt sé að stytta biðlistana. Gott og vel, þetta getur verið skýring til skamms tíma. En þetta er ekki skýring sem heldur ár eftir ár. Við erum einfaldlega ekki að fara vel með þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum úr að spila.“

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að þetta er í kafla í viðtalinu sem heitir Heilbrigðisráðherra hefur sitt fram: Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að beygja sig fyrir öfgavinstrinu í ríkisstjórninni sem vill ekki semja við þá sem geta gert svona aðgerðir? Eða hyggst ráðherra, af því að væntanlega verður 3. umr. fjárlaga á morgun, leggja fram tillögu um fjárheimildir til að hægt sé að gera slíka samninga til að taka mesta kúfinn (Forseti hringir.) af þeim biðlistum sem hér eru og lina þannig þjáningar þeirra sem bíða eftir þessum aðgerðum?