150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

fjárframlög til saksóknaraembætta.

[15:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Samherjamálið verður ein af umfangsmestu rannsóknum sem íslensk yfirvöld hafa stundað. Þetta er flókið mál sem nær til nokkurra landa, mál sem heimspressan og alþjóðlegar stofnanir munu fylgjast grannt með. Um leið og fréttir bárust af málinu lagði Samfylkingin til að fjármunir til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra yrðu auknir. En hvað gerðist í þessum sal? Þingmenn stjórnarliðsins felldu tillöguna þrátt fyrir augljósa þörf þessara embætta fyrir aukna fjármuni. Fyrir helgi voru síðan kynntar á fundi fjárlaganefndar breytingartillögur fjármálaráðherra og þar var engin tillaga um viðbótarfjármuni til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra vegna Samherjamálsins, ekki króna til viðbótar. Meiri hluti fjárlaganefndar ákvað síðan það sama núna í morgun, ekki króna þar.

Þetta er ótrúlegt í ljósi þess að embættin ráða vart við núverandi málabunka, eins og Panama-skjölin, og hvað þá þegar flókið milliríkjamál eins og Samherjamálið bætist við. Í raun áttu þessi tvö embætti að fá raunlækkun á milli ára í fjárlagafrumvarpinu og frekari lækkun er næstu árin samkvæmt áætlun. Hins vegar berast nú fréttir af því að fjármálaráðherra ætli sér að tryggja þá fjármuni. En hvernig verður það gert? Það er ekki í fjárlögum. Er virkilega betra að bara formaður Sjálfstæðisflokksins, einn manna, ákveði hvort og hvernig fjármögnun rannsóknar á Samherjaskjölunum verði háttað? Hvað er hvað í þeim málum, herra forseti? Ég minni ráðherrann á að fjárveitingavaldið liggur hjá þinginu en ekki uppi í ráðuneyti og að fjárlögin eru ekki prívatvasi ráðherrans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)