150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda.

[15:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Samherjamálið hefur sett á dagskrá, ofan í áratugalangar deilur um það, hver fari með forræði yfir nýtingarrétti á sameiginlegri sjávarauðlind landsmanna, þjóðin eða útgerðin, og hvernig þjóðinni skuli tryggð sanngjörn hlutdeild í mikilli arðsemi þessarar greinar. Arðsemin skýrist auðvitað af því að greinin nýtir þá sameiginlegu auðlind okkar gegn mjög vægu veiðigjaldi, gjaldi sem áætlað er upp á 5 milljarða kr. á næsta ári og til samanburðar má nefna að Samherji greiddi tvöfalt hærra verð á hvert tonn fyrir veiðiheimildir sínar í Namibíu. Fjöldi tilrauna hefur verið gerður til að ná sátt í þessu máli. Fyrst ber auðvitað að nefna tillögu auðlindanefndar Jóhannesar Nordals frá árinu 2000 sem fól í sér að veiðiheimildum skyldi úthlutað gegn gjaldi til afmarkaðs tíma. Þeirri niðurstöðu var raunar fagnað af þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins en komst aldrei til framkvæmda. Þá má minnast á svonefnda sáttanefnd sem starfaði í tíð vinstri stjórnarinnar og að sama skapi tillögur um tímabundnar veiðiheimildir sem samráðsvettvangur stjórnvalda um aukna hagsæld lagði fram. Síðast en ekki síst reyndi þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að leggja til breytingar í þá veru en því var hafnað af samstarfsflokki ráðherra og málið komst aldrei til þinglegrar meðhöndlunar.

Það er því ljóst að Framsóknarflokkurinn styður hugmyndir Viðreisnar og fleiri flokka um tímabundna úthlutun veiðiheimilda en Sjálfstæðisflokkurinn virðist standa uppi sem helsti andstæðingur þeirra. Í ljósi þeirrar staðreyndar að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa setið í ríkisstjórn, ýmist annar eða báðir, í 32 af þeim 36 árum sem kvótakerfið hefur verið við lýði, hljótum við getað dregið þá ályktun að ábyrgðin þarna liggi helst hjá Sjálfstæðisflokknum því að Framsóknarflokkurinn er klár. Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins: Hverra hagsmuna er flokkurinn að gæta í þessari andstöðu sinni við tímabundnar veiðiheimildir; hagsmuna þjóðarinnar eða hagsmuna sífellt fámennari eigendahóps íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja?