150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda.

[15:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég saknaði þess að hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrri fyrirspurn. Ef við horfum einmitt til þess sem ráðherra kom inn á er auðvitað staðreynd að arðsemi sjávarútvegs hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Greinin hefur byggt upp tæplega 500 milljarða eigið fé á um áratug á sama tíma og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið helst uppteknir við það að lækka veiðigjöld. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi um helgina að það truflaði hann ekki persónulega þótt einhverjir hefðu hagnast á þessari vegferð. Það er auðvitað alveg rétt, það er ekki út af fyrir sig athugavert við að fólk efnist á útsjónarsemi í rekstri, en því verður vart haldið fram að þjóðin hafi á sama tíma notið sanngjarnrar hlutdeildar í arðsemi greinarinnar.

Hvað er það sem hæstv. ráðherra, sem á tyllidögum kallar sig hægri mann, óttast svo við að veiðiheimildir séu boðnar út til 23 ára í senn eins og tillaga formanns Framsóknarflokksins á sínum tíma hljóðaði upp á? Er það kannski svo að útgerðin sé reiðubúin að greiða meira fyrir afnotaréttinn líkt og dæmin sýna, m.a. frá Namibíu? (Forseti hringir.) Er það kannski einmitt að það komi í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með áralangri andstöðu sinni við (Forseti hringir.) breytingar á fiskveiðistjórn snuðað þjóðina um sinn hlut?