150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

tímabundnar úthlutanir veiðiheimilda.

[15:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að talsmenn Viðreisnar hafi einmitt tekið það sérstaklega fram að engin trygging sé fyrir því að hærra gjald komi fyrir aðgengi að takmarkaðri auðlind með uppboðsleiðinni, það sé engin trygging fyrir því, þetta sé bara prinsippmál; það skipti ekki máli hvort menn muni greiða hærra eða lægra gjald, heldur að það verði einfaldlega að ráðast á markaði. Það er mjög holur hljómur í þeim málflutningi að það fari saman og að það sé einhver trygging fyrir því að fara með heimildirnar á markað og tryggja þjóðinni aukna hlutdeild í því að veita aðgengi að auðlindinni.

Þetta bara gengur ekki upp. (ÞorstV: … borga meira.) Þetta gengur ekki upp. Það sem við vitum er að eftir því sem menn hafa náð meiri hagræðingu hefur þeim gengið betur. Það sem við vitum er að 1993 og 1983–1984 gekk útgerðin á Íslandi almennt mjög illa og, já, það er ágætt og það kemur mér svo sem ekki mjög á óvart en hv. þingmaður þurfti að hafa dálítið fyrir því (Forseti hringir.) að draga það fram hér að það sé í lagi að hafa arðsemi af útgerð eins og öðrum atvinnurekstri í landinu en það hefur stundum verið dálítið djúpt á því hjá Viðreisn að taka þetta fram, meira að segja hjá fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. (Gripið fram í: Við viljum að þjóðin fái arð.)