150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:53]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um það hvað hér er á ferðinni. Við sjáum hvernig lögin eru. Í 24. gr. laga um opinber fjármál stendur:

„Í frumvarpi til fjárlaga skal gera ráð fyrir óskiptum almennum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum.“

Ég velti fyrir mér: Er rannsókn á Samherjamálinu ófyrirséð árið 2020? Vitum við ekki að það þarf að rannsaka þetta mál? Þetta skilyrði er ekki uppfyllt. Í öðru lagi: Ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti. Við getum svo sannarlega brugðist við með öðrum hætti, við erum ekki búin að loka fjárlögunum, 3. umr. fjárlaga er á morgun. Af hverju er ekki hér breytingartillaga um að tryggja þessa fjármuni í fjárlögum? Af hverju er verið að ganga fram hjá þinginu? Fjárveitingavaldið liggur hjá þinginu, ekki hjá hæstv. ráðherra.

Það er ótrúlega dularfullt, herra forseti, að hér sé barist af fullri hörku gegn því að samþykktar séu breytingar á fjárlögum til að tryggja þessum embættum nægilegt fé til að rannsaka þau mál. Við erum að samþykkja að bæta í til Flugsafns Íslands milli umræðna. Við erum að setja fjármuni í snjómokstur. Af hverju getum við ekki sett fjármuni til héraðssaksóknara og embættis skattrannsóknarstjóra?