150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Þessi umræða pirrar greinilega hæstv. fjármálaráðherra, en það breytir því ekki að það fer ekkert sérstaklega vel á þessari afgreiðslu. Það er algjörlega fyrirséð að þessi embætti muni þurfa aukin fjárframlög á næsta ári. Við því er ekki verið að bregðast og svo virðist vera sem ríkisstjórnin sé að reyna að sneiða fram hjá þeirri staðreynd að hún felldi samhljóða tillögu hér í 2. umr. fjárlaga um aukinn fjárstuðning við þessi embætti (Gripið fram í.) og er nú að fara einhverjar krókaleiðir með nýtingu varasjóða til að mæta algjörlega fyrirséðum útgjöldum á næsta ári. Mér finnst ekki góður bragur á þessu. Mér finnst þetta ekki vera í góðum takti við lög um opinber fjármál og mér finnst reyndar heldur ekki fara vel á því í þessu mikilvæga máli að þessi embætti, sem eiga að vera sjálfstæð í störfum sínum, eigi það undir góðsemi ríkisstjórnar hvort þau fái nauðsynleg fjárframlög til þess eða ekki meðan beiðni þingsins um að fá að veita þessum embættum sérstaka fjárheimild er synjað af meiri hluta þingsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)