150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að hefja máls á þessu. Þetta hefur verið lengi til skoðunar og ýmsum aðgerðum hefur verið hrint af stað til að mæta misjöfnum kostnaði raforkumála úti á landi. Sérstaklega verður mér hugsað til kaldra svæða. Einhverra hluta vegna hefur þessi vinna ekki náð góðri lendingu og munar þar miklu á, allt að tugum þúsunda á mánuði í mun.

Mig langar aðeins að drepa niður í spurningar til ráðherra og svör við þeim sem var dreift í haust. Þar er spurt: Hversu mikið myndi það kosta ríkissjóð að niðurgreiða rafhitun til íbúðarhúsnæðis á þeim svæðum þar sem notast er við rafhitun eða kyntar hitaveitur til þess að kostnaður notenda við húshitun yrði sambærilegur við veginn meðalkostnað af húshitun á veitusvæði Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og Selfoss?

Í svarinu stendur: Raforkuverð skiptist í tvo hluta: dreifingu og flutning, og svo orkusölu. Um dreifingu og flutning fer samkvæmt sérleyfum til starfseminnar á viðkomandi svæði. Vegna þessa fyrirkomulags kemur ríkið að því að niðurgreiða þann kostnað notenda á raforkuverði til húshitunar. Hinn hlutinn, orkusalan, er á samkeppnismarkaði og lögum samkvæmt hefur ríkið enga heimild til þess að koma að málum þar.

Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Orkustofnun er á samkeppnismarkaði sem er fylgifiskur orkupakka tvö sem var samþykktur hér fyrir nokkrum árum og var geirnegldur með orkupakka þrjú hér í sumar.