150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:29]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er búið að rekja mjög margt hér þó svo að það sé kannski líka mikið farið inn á almennari umræðu um raforkukostnað, húshitunarkostnað og annað því um líkt. En það er ljóst að það er dýrara á hvern notanda að veita rafmagn í dreifbýli og það er hreinlega vegna þess að það eru færri notendur á hvern ferkílómetra eða hvaða eining það er. Fyrir vikið er þetta spurning um byggðastefnu. Það er og verður pólitísk ákvörðun á hverjum tíma hvort og hvernig skuli jafna dreifikostnað. Það er því í rauninni eingöngu við ríkisstjórn hvers tíma að sakast ef þetta er með öðrum hætti en fólk kann að vilja hafa það.

Bilið milli dreifikostnaðar í þéttbýli og dreifbýli hefur aukist síðan 2010. Fram til 2010 var þetta nokkuð nálægt hvort öðru en síðan hefur bilið aukist og það allverulega og er enn að aukast. Það var annar vendipunktur árið 2015 og kannski er hægt að skoða hver orsökin var. En það sem mér finnst eiginlega lykilatriðið í umræðunni á þessum tímapunkti vera — og nú kann ég að meta það sem hæstv. ráðherra sagði áðan — er að ef það er vilji ríkisstjórnarinnar að fara með raforkudreifingu eins og markaðsvöru væri ágætt að það kæmi skýrt fram. Mér heyrist það ekki vera markmiðið en ef við þurfum að eiga þá umræðu er það á öðrum forsendum en við erum að gera. Í öllu falli hefur verið þannig litið á það hingað til, að mér skilst, að dreifing á raforku sé ekki markaðsvædd sem slík heldur sé hluti af hinu almenna innviðakerfi. Þá verðum við alla vega að vera skýr á því að dreifikostnaðurinn skuli vera jafn og þá verður líka að fylgja pólitíska ákvörðun um hvernig eigi að láta það gerast.