150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:53]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls í umræðunni fyrir þátttöku í henni og hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir svör sín. Ég held að útgangspunkturinn sé nokkuð svona eins og við höfum talað um og ég tek undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni að þetta sé óréttlæti. Þessu var komið á og við þurfum einhvern veginn að snúa ofan af því. Kannski verður það til þess að verð hækki á einhverjum öðrum stöðum en við erum að tala um samkeppnishæfni dreifbýlisins. Eins og fram hefur komið hjá nokkrum þingmönnum erum við að tala um að matvælaframleiðslan fer að mestu leyti fram í dreifbýlinu. Þegar við tölum bara um samkeppnishæfni atvinnurekenda í landinu hljótum við að þurfa að tala um þá alla í einu mengi en ekki bara gera nánari skil á milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Hæstv. ráðherra kom inn á nokkrar útfærslur sem hún hefur verið að skoða og ég veit að þetta hefur verið mikið í umræðunni og margar leiðir til athugunar en það verður að hraða því og þess vegna erum við að taka þetta upp aftur og aftur þó að við vitum nokkurn veginn svörin við spurningunum. Við erum að horfa til þess að það dregur stöðugt í sundur þarna og við verðum að fara að hraða aðgerðunum.