150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem hljóðar svo: Hvernig hyggst ráðherra efla upplýsingagjöf um kolefnislosun þannig að tölur um losunina verði ekki meira en hálfs árs gamlar?

Það er ákveðin ástæða fyrir því að ég set þetta fram. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra mun væntanlega svara því — ég er að reyna að geta mér til um það hver svörin verða — að Umhverfisstofnun hafi nú þegar verið falið að gera losunarspá til næstu tveggja ára og ég vil undirstrika að það er fínt og það er vel en það er aðeins spá. Spáin byggir ekki á endanlegum gögnum. Auðvitað eru þær mjög gagnlegar en við þurfum að fá niðurstöður fyrr sem eru byggðar á raunverulegum gögnum og miklu fyrr en núna er raunin. Ég vil helst sjá að við fáum raunupplýsingar ekki síðar en sex mánuðum eftir hver áramót.

Það þarf að efla og styrkja upplýsingagjöf stjórnvalda þannig að almenningur viti hver árangurinn er miklu nær rauntíma en nú er. Ég vil spyrja í leiðinni hvort ráðherra sé mér ekki sammála hvað það varðar og þá nálgun.

Við vitum að hægt er að gera betur en raunin er og ég veit að hæstv. umhverfisráðherra hefur fullan hug á að standa fyrir slíkum vinnubrögðum. Ég tel líka, ekki síst í ljósi margs konar umræðu af hálfu alls konar hópa og fólks, að betri upplýsingar, skjótari upplýsingar séu valdeflandi fyrir allan almenning, ekki síst unga fólkið. Unga fólkið okkar vill sjá aðgerðir, helst um leið. Við verðum að reyna að koma fram með svör og úrlausnir eins fljótt og hægt er. Þess vegna skipta upplýsingar máli en að mínu mati ekki síst núna fyrir þessa hópa fólks. Það væri hjálplegt að hafa upplýsingarnar nær í tíma í samskiptum okkar, ég veit t.d. að hæstv. ráðherra stendur í því alla daga að vera í samskiptum við loftslagshlýnunarafneitunarsinna. Þá hjálpa upplýsingar mjög mikið, rök og upplýsingar eins nálægt í tíma og hægt er.

Þess vegna hvet ég ráðherra og vil fá um leið svar frá honum um hvort hann ætli ekki að efla upplýsingagjöf, ekki bara benda á og vera með einhverjar losunarspár til næstu tveggja ára heldur hvernig hann hyggist bæta upplýsingagjöfina og hvort hann ætli ekki að færa hana nær tíma. Ég held að það væri mjög í þágu allrar umhverfisumræðu.