150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

upplýsingagjöf um kolefnislosun.

199. mál
[17:08]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég verð fljótur að þessu. Mig langar bara að benda á að losunartölur eru tvenns konar. Það eru þær sem hægt er að reikna út frá eins og notkun jarðefnaeldsneytis hvar sem er eða kola eða annars í iðnaði. Það er sem sagt hægt að reikna það út vegna þess að vitað er um innihaldið í hverju tonni eða kílógrammi. Hinar tölurnar sem um er að ræða eru þær sem eru fengnar með því að vinna mælingar í t.d. votlendi eða skógi. Það getur verið bindingin í skóginum eða losunin í votlendinu. Það væri hægt að gera mælingar fyrir ýmsar gerðir og síðan er hægt að margfalda þær tölur sem þar fást við flatarmál skóga eða votlendis.

Í öllum tilvikum er þetta flókið og það eru verulegar óvissutölur sem fást með þessu móti, bara svo það sé sagt.