150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

nýskógrækt.

303. mál
[17:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í sumar kynntum við forsætisráðherra viðamiklar aðgerðir varðandi kolefnisbindingu en þar er um að ræða einn meginþátt aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Það þýðir að við munum á næstu þremur árum tvöfalda umfang landgræðslu og skógræktar og tífalda endurheimt votlendis. Áætlað er að þær aðgerðir sem við munum ráðast í einungis næstu fjögur ár, að árinu í ár meðtöldu, muni skila um 50% meiri árlegum loftslagsávinningi árið 2030 en núverandi binding er og um 110% meiri ávinningi árið 2050 miðað við það sem er í dag.

Hv. þingmaður nefndi mikla möguleika til kolefnisbindingar með skógrækt. Ég vil nefna að einungis vegna þeirra aðgerða sem við réðumst í nú í ár og sem farið verður í á næstu þremur árum munum við þannig binda árlega um 2,1 milljón tonna af CO2 árið 2050. Til samanburðar var losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda 2,9 milljónir tonna árið 2017. Við erum þannig að tala um gríðarlega viðamiklar aðgerðir í kolefnisbindingu sem hafa áhrif langt inn í framtíðina.

Skógrækt er einn liður í umræddum aðgerðum.

Um skógrækt gilda lög um skóga og skógrækt nr. 33 sem Alþingi samþykkti sl. vor. Þar eru sett fram markmið sem unnið verður að á næstu árum. Þau varða m.a. vernd og aukna útbreiðslu náttúruskóga, vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og ræktun nýrra skóga til að byggja upp fjölbreytta skógarauðlind til sjálfbærra nytja. Mótun stefnu stjórnvalda í skógrækt til næstu tíu ára er í gangi í samræmi við 4. gr. laganna en skipuð hefur verið verkefnisstjórn sem vinnur að gerð landsáætlunar í skógrækt. Þar er fjallað um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt.

Fjallað er um skógrækt í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum frá 2018, eins og hér var komið inn á áðan, og þau áform útfærð nánar í júlí sl. Þar kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að umfang skógræktar í helstu verkefnum aukist úr um 1.100 hekturum á ári árið 2018 yfir í um 2.300 hektara árið 2022, líkt og kom fram í máli hv. þingmanns.

Það má kannski segja að skógrækt á Íslandi, þar sem aðkoma ríkisins er, fari fram einkum með þrennum hætti. Þar er í fyrsta lagi skógrækt á lögbýlum sem áður voru landshlutabundnu skógræktarverkefnin. Samkvæmt þeim ber Skógræktinni að veita framlög til skógræktar, þar með talið vegna verndar og endurheimtar náttúruskóga, og skjólbeltaræktar á lögbýlum í samræmi við fjárveitingar til stofnunarinnar og fjárlög hverju sinni. Gert er ráð fyrir að umfang skógræktar á lögbýlum aukist úr gróðursetningu um 650 hektara árið 2018, í um 1.300 hektara árið 2022. Miðað við þessar forsendur má gera ráð fyrir að það taki rúmlega 20 ár að klára gróðursetningu í land sem þegar er samningsbundið innan skógræktar á lögbýlum. Talsverður fjöldi landeigenda hefur sótt um þátttöku í verkefninu á síðustu misserum.

Í öðru lagi fer skógrækt á Íslandi fram í gegnum Landgræðsluskóga og önnur verkefni á vegum félagasamtaka. Við erum með samstarfssamning í gildi milli Skógræktarfélags Íslands og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Markmið Landgræðsluskóga er að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem og að vinna að framkvæmd laga um skóga og skógrækt og laga um landgræðslu. Innan þessa verkefnis og annarra verkefna á vegum skógræktarfélaganna hefur skógrækt farið fram á um 200–280 hekturum árlega. Um er að ræða skógrækt í nágrenni þéttbýlis með markmið um gerð útivistarskóga.

Í þriðja lagi fer skógrækt á Íslandi fram með skógræktarstarfi af hálfu stofnana ríkisins. Skógræktin stendur fyrir skógrækt í lönd sem eru í umsjón stofnunarinnar og það sama á við um Landgræðsluna. Fyrst og fremst er gert ráð fyrir aukningu framlaga til endurheimtar birkiskóga og náttúruskóga þegar kemur að þessum þætti skógræktar, ólíkt skógrækt á lögbýlum. Hún fer fram með gróðursetningu, sáningu og breytingu á landnýtingu þannig að sjálfsáning birkis geti átt sér stað.

Að auki eru fjölmörg skógræktarfélög og einstaklingar sem stunda skógrækt, eins og við þekkjum, verkefni eins og Kolviður og fleiri.

Ég vil hins vegar minna á að við þurfum að gæta að fleiri þáttum en bara kolefnisbindingunni þegar við ráðumst í þessi verkefni okkar, t.d. að gæta að markmiðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og þar með þeim tegundum sem notaðar eru í skógræktinni.

Ég hyggst koma í síðara svari mínu inn á þá fullyrðingu hv. þingmanns að verið sé að lækka framlög til Skógræktarinnar því að tíminn er búinn núna.