150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

nýskógrækt.

303. mál
[17:29]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Virðulegi forseti. Um fyrirspurn hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar er það fyrst að segja að framlögin sem eru áætluð í fjárlagafrumvarpinu og í fjármálaáætlun duga einmitt fyrir því sem hér hefur verið kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þegar hv. þingmaður talar um að niðurskurður sé í skógræktinni vil ég benda honum á að í fylgiriti með fjárlagafrumvarpinu kemur fram að það muni 10 milljónum á milli 2019 og 2020. Tillögur fjárlaganefndar voru um að auka þessi framlög um 28 milljónir á milli ára.

Ég vil líka benda á að ástæðan fyrir þessu er sú að Skógræktin hefur á síðustu árum fengið eignarnámsbætur sem voru tímabundnar fjárheimildir sem þarna dragast frá. Það er ekki rétt að segja að verið sé að draga úr fjármunum sem fara til kolefnisbindingar. Það er bara kolrangt. Ef við skoðum framlög til skógræktar á lögbýlum munu þau fara úr 220 milljónum á fjárlögum 2017 upp í 392 milljónir í áætluninni 2022. Ef það er ekki aukning veit ég ekki hvað aukning er. Framlögin duga einmitt fyrir þessu. Það er ekki verkefni næstu ríkisstjórnar að ráðast í það sem ég lýsti áðan að myndi gerast árið 2050 heldur akkúrat þessarar ríkisstjórnar sem hefur lagt ríka áherslu á að fara í þessa vegferð, að einn hluti af aðgerðum í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sé einmitt kolefnisbinding, vissulega samt ekki það eina.

Síðan var ég spurður hvort lagt hafi verið mat á hve stór svæði geti gróið upp án aðkomu mannsins. Ég þekki ekki til þess að það mat hafi verið lagt á, en ég bíð hins vegar eftir upplýsingum frá Landgræðslunni og Skógræktinni um akkúrat (Forseti hringir.) þann hraða sem komið var inn á hér með sjálfsáningu. Það eru fjölmargar aðferðir sem verið er að beita þegar kemur að kolefnisbindingunni og sjálfsáning birkis er svo sannarlega ein af þeim.