150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

aðlögun að loftslagsbreytingum og aðgerðaáætlun þar að lútandi.

349. mál
[17:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur fyrir þessa fínu umræðu og hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að taka hana upp. Ég tek sérstaklega undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um fólksflóttann vegna þess að þetta er alveg hárrétt. Þetta er nokkuð sem við munum að öllum líkindum sjá stóraukast í framtíðinni ef heldur áfram að hlýna og Sýrland er prýðilegt dæmi. Þetta þarf líka að taka inn í áætlunargerð okkar þegar kemur að aðlögun vegna loftslagsbreytinga.

Mig langaði líka að segja frá því á þessum vettvangi að stjórnvöld hafa sett stóraukin framlög í að rannsaka betur afleiðingar súrnunar sjávar á lífríki hafsins með samningi við Hafrannsóknastofnun í vor eða sumar. Einnig höfum við sett aukið fjármagn í að vakta betur sjávarstöðubreytingar og til að kortleggja hættu á skriðuföllum. Við erum að takast á við talsvert mörg ný verkefni þegar kemur að loftslagsbreytingunum og hluti af því er að auka rannsóknir á þeim breytingum sem eru að verða. Ég get líka nefnt aukið framlag til Veðurstofunnar út af rannsókn á hopi jökla. Þannig er ríflega 250 millj. kr. varið til að efla vöktun á súrnun sjávar og jöklum næstu fimm árin hér á landi, svo dæmi sé tekið.

Til að draga þetta saman vil ég segja að mjög mikilvægt er að reyna að koma sem mest í veg fyrir loftslagsbreytingar. Það er stóra verkefnið, en verkefnið að aðlaga samfélög að loftslagsbreytingum verður líka sífellt stærra. Hér kemur líka að því að við þurfum að beina aðgerðum, a.m.k. sumum, í þá átt að það geti nýst bæði til að draga úr losun eða binda kolefni (Forseti hringir.) og að það geti nýst sem aðlögunaraðgerðir. Slíkar aðgerðir eru til.