150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þennan stutta tíma til að tala um fólkið sem leitar til mín, fólkið sem grætur og biður mig um hjálp. Mig langar að nota þessa stuttu stund til að tala um konuna sem býr í Breiðholti, hneig niður veik og var að koma heim eftir fimm daga legu á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Hún er ein, hún á enga fjölskyldu, hún á enga ættingja og enga vini. Hún átti engan mat og á engan ísskáp. Það er þyngra en tárum taki að við skulum tala um allsnægtasamfélagið Ísland. Á sunnudaginn kemur er fyrsti sunnudagur í aðventu — enn ein jólin og alltaf jafn kvíðvænleg fyrir svo allt of marga.

Mér finnst dapurlegt, virðulegi forseti, hvernig ríkisstjórninni tekst að mála samfélagið þannig að hér drjúpi smjör af hverju strái miðað við það sem blasir við mér dagsdaglega í kringum fátækt fólk, fólk sem er að biðja um hjálp. Það er með hreinum ólíkindum að á eftir skulum við ganga til 3. umr. fjárlaga án þess að nokkurt tillit sé tekið til breytingartillagna og þess góða vilja sem við í minni hlutanum höfum lagt til til að koma til móts við okkar minnstu bræður og systur. En það er eins og hefur verið síðan ég steig í þetta háa ræðupúlt, æðsta ræðupúlt þjóðarinnar, ekkert hefur breyst til batnaðar fyrir þá sem er haldið undir hungurmörkum, kvíðnum og grátandi. Þau eiga um sárt að binda. Ríkisstjórnin sem er engan veginn sjáanleg gerir akkúrat ekkert til að hjálpa þessu fólki.