150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fyrir tveimur vikum var Kveiksþátturinn sýndur sem sagði ótrúlega og ógeðslega sögu spillingar, múta og peningaþvættis. Okkur er öllum brugðið. Við urðum reið og sorgmædd, það eru allt eðlileg viðbrögð, og auðvitað gerum við öll þá kröfu að málið sé rannsakað ofan í kjölinn af þar til bærum yfirvöldum og eftir atvikum ákært og dæmt. Ég tel mikilvægt að við virðum þrískiptingu ríkisvaldsins og látum þar til bærum aðilum eftir að rannsaka og dæma í málinu. Það er mikilvæg lexía sem við eigum að hafa lært, að gera þennan sal ekki að dómsal.

Það er ekki langt síðan við fjölluðum um mútubrot og hækkuðum hámarksrefsingu fyrir það brot að bera fé á innlenda eða erlenda starfsmenn en þá var refsingin þyngd úr fjórum árum í fimm. Þetta var gert í tíð hv. þm. Sigríðar Á. Andersen í dómsmálaráðuneytinu og ég verð að viðurkenna að mér fannst sú umræða þá fjarstæðukennd en því miður er hún það alls ekki.

Við skulum samt ekki missa okkur í umræðu um að hér sé allt vaðandi í spillingu. Svo er auðvitað ekki en við eigum að bregðast við þessum fréttum. Við þurfum að tryggja, eins og við höfum gert, að þar til bærir aðilar hafi þau aðföng sem þeir þurfa til að rannsaka málið.

Ríkisstjórnin hefur gripið til aðgerða til að auka traust á íslensku atvinnulífi. Leitað verður til Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna en hún verður látin vinna úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir, þar á meðal í þróunarlöndunum. Þá verður að vinna að því að auka gegnsæi í rekstri óskráðra fyrirtækja og stórra sjávarútvegsfyrirtækja. Mútur og spilling eru alþjóðlegt vandamál sem verður að uppræta. Ísland á að taka þátt í því verkefni af fullum þunga og það er algjörlega óboðlegt, reyndar líka ólöglegt, að íslensk fyrirtæki taki þátt í slíku. Ábendingar um slíkt þarf að rannsaka ofan í kjölinn, ákæra og dæma í samræmi við lög. Það er einfaldlega og verður ekki liðið að íslensk fyrirtæki brjóti lög og reglur.