150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Störf þingsins koma við sögu starfsemi Norðurskautsráðsins og annarra sem fjalla um norðurslóðamálefni. Formenn þingmannanefndar um norðurslóðir hittast a.m.k. þrisvar á árinu sem er á milli hverrar þingmannaráðstefnu um norðurslóðir. Á þessum fundum er sjálf ráðstefnan, sem haldin er annað hvert ár, og yfirlýsing hennar undirbúin. Yfirlýsingin er svo send til Norðurskautsráðsins og ríkisstjórn ríkjanna átta, auk Evrópuþingsins. Þingnefnd hvers hinna átta ríkja gerir svo grein fyrir yfirlýsingunni í sinni árlegu skýrslu til þinganna.

Þriðji formannafundur ráðsins var haldinn í bútum nú í nóvember og þar bar helst til tíðinda að Rússar hafa tekið upp mun opnari afstöðu til loftslagsbreytinganna og leggja æ meira á sig í umhverfismálum inni á heimskautasvæðum sínum. Það vantaði reyndar fulltrúa Bandaríkjanna og Kanada en hafin er vinna við að tryggja viðveru bandarísku þingmannanna á öllum fundum sem eru tengdir þingmannastarfsemi um norðurslóðir. Samhliða þessum fundi var svo haldin tveggja daga ráðstefna Norrænu víddarinnar, eða „Northern Dimension“. Þetta er samstarfsvettvangur og verkfæri Evrópusambandsins, þ.e. Dana, Grænlendinga, Svía, Finna og svo Rússa, Íslendinga og Norðmanna. Verulegur þungi er á Barentshafs- og Eystrasaltssvæðunum og því er þátttaka landa sunnan til við Eystrasalt einnig með í myndinni. Barentssvæðið er áhugavert því þar eru býsna opin landamæri og óvenjulega opin samskipti þjóðanna, þ.e. Norðmanna og Rússa. Svo er samstarf ESB og Rússa merkilegt, t.d. hefur ESB aðstoðað undanfarið við að byggja upp fullkomið fráveitukerfi í Sankti Pétursborg og ganga frá geislavirkum úrgangi úr kjarnorkuknúnu skipi sem var með lekan ofn. Einnig er unnið vel milli Norðurlanda og Rússa að því að verjast hættu við ásókn baktería sem eru þolnar gegn sýklalyfjum. Í yfirlýsingu NV kom í fyrsta sinn fyrir skýr tenging loftslagsmála við starfsemi fyrirtækja á norðurslóðum og tekið var undir töluleg markmið Parísarsamkomulagsins með fullu samþykki allra við borðið. Það eru verulega góð tíðindi.