150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag verður lagt fram frumvarp frá félags- og barnamálaráðherra um fæðingar- og foreldraorlof og er það í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá því í vor. Hér er verið að stíga mikilvægt skref í átt að 12 mánaða fæðingarorlofi sem verður að fullu komið á árið 2021. [Kliður í þingsal.] Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði í mars 2016 tillögum sínum til þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra. Það kemur ekki á óvart að þetta sé komið til framkvæmda núna á vakt Framsóknarflokksins í ráðuneytinu. Framsóknarflokkurinn hefur á sinni vakt í þessu ráðuneyti stigið stór skref til að bæta réttindi foreldra og það var Páll Pétursson, þáverandi félagsmálaráðherra, sem kom því í lög árið 2001 að feður skyldu líka eiga rétt á að taka foreldraorlof. Það þótti mikilvægt skref að binda í lög rétt barnsins á að fá að umgangast báða foreldra sína fyrstu mánuði lífs síns.

Í sameiginlegri umsögn prófessors í félagsráðgjöf og dósents í félagsfræði við Háskóla Íslands um frumvarpið kemur m.a. fram að lenging á rétti foreldra til fæðingarorlofs sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé tímamótaáfangi til hagsbóta fyrir fjölskyldur í þágu hagsmuna barna og foreldrajafnréttis. Jafnframt kemur fram að ítrekaðar kannanir meðal foreldra sýni að sjálfstæður réttur foreldra til fæðingarorlofs sé sérstaklega mikilvægur þegar fjölskyldur deila ekki lögheimili en stór hluti feðra sem deilir ekki lögheimili með börnum sínum nýtir sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Virðulegi forseti. Lenging fæðingarorlofsins fyllir líka að miklu leyti upp í það bil sem hefur verið milli þess þegar foreldrar ljúka fæðingarorlofi sínu og þangað til þeir geta komið börnunum á leikskóla því að víða um land eru sveitarfélögin farin að bjóða upp á leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur.