150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var einmitt að reyna að draga fram í andsvari mínu að þegar kemur að hinni stóru mynd er einmitt ekki verið að framkvæma hægri stefnu þegar kemur að ríkisfjármálum. Það er ekki verið að fara í niðurskurð, heldur leyfum við okkur að fara í halla með ríkissjóð vegna þess að það er mikilvægt að skera ekki niður í þessu efnahagsástandi. Ég var að spyrja hv. þingmann hvort hann væri mér ekki sammála um að það væri mikilvægt.

Vegna þess að hv. þingmaður minntist á veiðigjöldin er mikilvægt að muna að hefði lögunum ekki verið breytt hefðum við með gamla kerfinu fengið 2 milljörðum minna á fiskveiðiárinu 2019–2020 en við fáum. Hins vegar sveiflast gjöldin í takt við afkomu í greininni. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að þessi ríkisstjórn hafi lækkað veiðigjöld. Þau sveiflast og þau munu sveiflast upp á einhverjum öðrum tímapunkti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)