150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds er dálítið sem ég hef áhuga á og var nefnt í störfum þingsins fyrr í dag. Litla Ísland gerir meðhöndlun hagsmunatengsla eilítið flóknari en mögulega gengur og gerist í öðrum löndum. Margt bendir hins vegar til þess að það sé ekki einu sinni verið að reyna, vandamálið sé það flókið, allir eru hvort eð er svo tengdir að það sé aldrei hægt að losa um öll tengsl. Dæmi um hagsmunatengsl sem eru mjög erfið viðureignar eru tengsl löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, nánar tiltekið tengsl framkvæmdarvalds og þeirra sem eiga að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Á Íslandi tíðkast að meiri hluti flokka rotti sig saman til þess að ráða öllu, störfum þingsins jafnt sem rekstri ríkisins. Einnig eru dæmi um afskipti framkvæmdar- og löggjafarvaldsins af öllum stigum dómsvaldsins. Þessi hefð, að meiri hluti þings taki sér framkvæmdarvaldið, brýtur gagngert niður eftirlitshlutverk þingsins vegna þess að það getur aldrei verið meiri hlutanum í hag að gagnrýna eigin verk. Því situr minni hlutinn uppi með eftirlitshlutverkið án þess að hafa það ótakmarkaða svigrúm sem þarf til þess að sinna því hlutverki vegna þess að meiri hlutinn hefur dagskrárvaldið á þingi. Á þessu eru einungis tvær lausnir, að hefð skapist um minnihlutastjórnir eða að framkvæmdarvaldið fái sjálfstætt umboð í kosningum.

Hér er minnst á aðskilnað eftirlitsvalds og framkvæmdarvalds í samhengi fjárlaga vegna þess að fjárlög eru stjórnarskrárbundin heimild þingsins til framkvæmdarvaldsins um meðhöndlun á almannafé. Fjárlög eru grunnurinn að starfsemi framkvæmdarvaldsins með tilliti til framkvæmda, skattstefnu, rekstrar og uppbyggingar heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins, samgöngukerfisins og velferðarkerfisins. Samkvæmt lögum um opinber fjármál birtist stefna stjórnvalda í fjármálaáætlun og framkvæmd þeirrar stefnu í fjárlögum, stefna sem er forgangsröðuð og kostnaðar- og ábatametin í sviðsmyndagreiningum ýmissa mögulegra valkosta sem þar liggja á bak við.

Dæmi um slíkt er sú greining sem fór fram vegna þróunar samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru framtíðarhorfur skoðaðar og hvernig mismunandi lausnir kæmu til móts við þær horfur. Niðurstaðan samkvæmt þeim greiningum var samhliða uppbygging á stofnvegum og borgarlínu. Allar aðrar sviðsmyndir komu verr út og voru dýrari. Í því samhengi var mjög kaldhæðnislegt að sjá ýmsa stjórnmálaflokka taka sér stöðu gegn uppbyggingu borgarlínu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þeir stjórnmálaflokkar börðust beinlínis fyrir verri nýtingu á almannafé, börðust fyrir verri lausnum með lélegri pólaríseringarpólitík. Staða fjárlaga er hins vegar önnur og ef eitthvað er verri, það vantar allar greiningar. Það þýðir í raun að stjórnvöld vilja láta Alþingi giska á hver sé skynsamleg notkun almannafjár. Afleiðingin af því er líka sú að ómögulegt er að fylgja eftir framkvæmd fjárlaga með nokkurs konar eftirliti með því hvort áætlanir standist eða ekki, sem er nákvæmlega það sem framkvæmdarvald vill almennt séð, að ekkert eftirlit sé með störfum þess eða a.m.k. bara sýndareftirlit þar sem stjórnvöld geta montað sig af hverju sem er án þess að eiga nokkra innstæðu fyrir því. Það tekst af því að eftirlitið hefur heldur ekkert haldfast til þess að miða við, aðeins stórar tölur í samhengi fjárlaga sem eru ekkert sundurgreindar eða kostnaðargreindar eða ábatagreindar eða neitt. Hérna er stór tala sem ég ætla að fara í ýmis verkefni fyrir en ég ætla ekki að segja ykkur hvað neitt kostar þar inni á milli. Ég ætla hins vegar að segja ykkur að ég þarf 5 milljarða til þess. Og þegar við spyrjum af hverju er svarið: Bara. Mér finnst það. En samt þegar á reynir ætla ég að færa 2 milljarða yfir á næsta ár af því að við gátum ekki alveg notað allan peninginn. Þetta er sturluð framkvæmd.

Dæmi um það vandamál sem myndast á milli þeirrar óljósu skiptingar sem er á eftirliti og framkvæmdarvaldi eru samskipti meiri hluta fjárlaganefndar og ráðherra en rétt áður en 2. umr. fór fram fékk meiri hluti fjárlaganefndar að funda með einstökum ráðherrum og spyrja ráðherra um ýmislegt tengt þeirra málefnasviðum. Minni hlutinn fékk ekki fundarboð á þá fundi og fékk því ekki sama tækifæri og meiri hlutinn til þess að kynnast þeim smáatriðum sem, samkvæmt afspurn, var spurt út í á þeim fundum. Afsökun meiri hlutans var á þá leið að hann hefði bara verið að tala við ráðherrana sína, eins og kom fram í andsvörum áðan, og fyndist svona fundir fullkomlega eðlilegir. Það væri jú hægt að hitta ráðherra hérna á göngum eða í heimahúsi eða á kaffihúsi eða hvar sem er til að spjalla um þessi atriði.

Þetta er sama stjarnfræðilega sturlaða afstaða og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sýndi með því að hringja í vin sinn vegna þess sem getur verið stærsta mútumál Íslandssögunnar til þess að spyrja hvernig honum liði og hver veit hvað annað. Þarna eru hagsmunatengslin látin ráða á kostnað eftirlitshlutverks þingsins og þeirrar ábyrgðar sem ráðherra hefur gagnvart þingi og þjóð.

Í 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands segir, með leyfi forseta:

„Færa skal skrá um formleg samskipti og fundi, sem og óformleg samskipti ef þau teljast mikilvæg, milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“

Meðhöndlun þingsins á fjárlögum er tvímælalaust mikilvægt mál og þegar þingið er að fjalla um það getur það aldrei talist neitt annað en formleg samskipti þegar ráðherrar eiga samskipti við fjárlaganefnd, hvort sem það er við hluta fjárlaganefndar eða alla fjárlaganefnd.

Um þessa lagagrein eru settar reglur, samanber reglur um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands, nr. 320/2016, þar sem m.a. kemur fram um formleg samskipti:

„Fundi sem formlega er boðað til um tiltekin mál sem til meðferðar eru í ráðuneyti. Að lágmarki skal skrá upplýsingar um að fundur hafi átt sér stað, hvenær fundurinn var haldinn og hverjir sátu fundinn. Komi fram upplýsingar á fundi sem hafa þýðingu við meðferð og afgreiðslu máls, eða teljast almennt mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið og ekki koma fram í öðrum skráðum gögnum, skal jafnframt skrá minnispunkta um það í málaskrá.“

Fundur meiri hluta fjárlaganefndar með ráðherra um frumvarp til fjárlaga getur ekki talist annað en formlegur fundur og jafnvel þótt reynt væri að túlka þann fund sem óformlegan þá eru reglurnar um slíka fundi mjög svipaðar:

„Skrá skal í málaskrá ráðuneytis óformleg samskipti milli ráðuneyta sem og við aðila utan þess ef þar koma fram mikilvægar upplýsingar um málefni sem heyra undir ráðuneyti. Með óformlegum samskiptum er átt við munnleg samskipti, þar á meðal símtöl og fundi, þar sem lýst er afstöðu eða veittar upplýsingar sem teljast hafa þýðingu fyrir mál sem er til meðferðar í ráðuneyti eða teljast mikilvægar vegna málefna sem heyra undir ráðuneytið, enda komi afstaðan eða upplýsingarnar ekki fram í öðrum skráðum gögnum. Skrá skal hvenær samskipti fóru fram, milli hverra og efni upplýsinga sem um ræðir.“

Þetta er mjög skýrt, virðulegi forseti, og þetta er atriði sem við þurfum að taka alvarlega. Sporin hræða hvað það varðar. Það sem gerist er að í staðinn fyrir að meiri hluti fjárlaganefndar sendi frá sér formlegt erindi um minnisblað frá ráðherrum, til þess að fá nákvæm svör við einstökum spurningum, þá boðar meiri hluti nefndarinnar ráðherra á fund sinn í fundarherbergjum þingsins án fulltrúa minni hlutans. Á þeim lokaða fundi fær hluti þingmanna, sem eru hluti af stjórnarflokkunum, sérstakan aðgang að ráðherra umfram þingmenn minni hluta til þess að spyrja um einstök málefni frumvarps til fjárlaga. Þetta finnst þeim vera fullkomlega eðlilegt, enda bara að spjalla við ráðherrana sína sem hægt væri að tala við á ýmsum óformlegum vettvangi. Þetta lýsir hins vegar vandamálinu í hnotskurn, ástæðu þess að það á að vera aðskilnaður á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Mismunandi aðgangur að upplýsingum eykur valdaójafnvægið sem nóg er af milli meiri hluta og minni hluta og þegar þingmenn stjórnarflokkanna fá sérstakan aðgang að ráðherra til þess að spyrja um einstök atriði frumvarps til fjárlaga, sem allir þingmenn á Alþingi þurfa að ræða og greiða atkvæði um, þá getur umræðan aldrei orðið á jafnræðisgrundvelli. Sumir, sem samkvæmt hefðinni um meirihlutavald sinna ekki eftirlitshlutverki, hafa aðgang að upplýsingum sem minni hlutinn á þingi getur ekki notað og ekki upplýst almenning um í nefndarálitum sínum.

Þrátt fyrir að til séu lög um skráningu formlegra og óformlegra funda ráðherra eru upplýsingarnar langt frá því að vera rétt skráðar eða nægilega aðgengilegar til þess að hægt sé að skoða samskipti ráðherra við hagsmunaaðila eða aðra. Sem dæmi er ég með í nefndarálitinu nýjustu færsluna úr dagbók félags- og barnamálaráðherra sem ég sótti 24. nóvember 2019.

Færslan er um vikuna 2.–6. september og svo er ein dagbókarfærsla fyrir 7. ágúst þar líka einhverra hluta vegna, mjög spes. Miðað við þessa dagskrá er ekki mjög mikið að gera sem ráðherra, voðalega létt starf. Tökum dæmi hérna, þriðjudaginn 3. september. Þá er ríkisstjórnarfundur kl. 9.30 og svo er dagskráin búin. Augljóslega gerir ráðherra meira, alveg augljóslega, formlegir fundir eða óformlegir en það er ekki skráð. Nei. Hvað þá efni fundarins, upplýsingar. Nei.

Ríkisstjórn Íslands verður að fara að taka hagsmunatengsl alvarlega. Það á líka við um samskipti ráðherra við þingmenn stjórnarflokkanna. Ráðherra hefur önnur völd og skyldur í hlutverki sínu. Óformleg samskipti við þingmenn stjórnarflokka eða þingmenn eigin flokks geta flokkast sem skráningarskyld. Ráðherrar verða að horfa þar til samskipta milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Þar getur ráðherra ekki sleppt því að fara að lögum um Stjórnarráð Íslands. Hlutverk ráðherra er gagnvart þingi og þjóð, ekki einstökum þingmönnum.

Skiptum aðeins um gír, skellum okkur í nýja Landspítalann. Þar er önnur hringavitleysa í gangi sem ég botna enn ekki í þrátt fyrir að við höfum fengið gesti til þess að reyna að útskýra það mál fyrir okkur.

Hinn 7. nóvember sl. voru fjárlaganefnd kynntar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarp til fjárlaga fyrir 2. umr. Þar fékk fjárlaganefnd fyrst að vita af 3,5 milljarða kr. niðurskurði til framkvæmdar nýs Landspítala. Meiri hluti nefndarinnar sagðist einnig vera að frétta af þeim tillögum í fyrsta skipti þá á fundi nefndarinnar. Sama dag barst fjárlaganefnd minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu vegna fyrirspurnar nefndarinnar um framkvæmdir við nýjan Landspítala. Þar var spurningin: „Telur ráðuneytið ástæðu til að ætla að byggingaráætlanir meðferðarkjarna og fleiri bygginga verði umfram þær áætlanir sem kynntar hafa verið fjárlaganefnd til þessa?“ Því var svarað með orðunum: „Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki ástæðu til að ætla annað en að byggingaráætlanir NLSH verði í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið til þessa.“

Þetta er 7. nóvember, sama dag og við fáum að vita um 3,5 milljarða kr. niðurskurð. 13. nóvember berst fjárlaganefnd svo annað með minnisblað frá framkvæmdastjóra nýs Landspítala um að, með leyfi forseta, „uppsteypa meðferðarkjarnans og önnur jarðvinnuverkefni hliðrist til á árinu 2020 til ársins 2021 sem nemur allt að 3 milljörðum“.

Fram kom í nefndarvinnunni að um eftiráskýringar hefði verið að ræða, þ.e. að beiðni um útskýringu hefði ekki borist fyrr en eftir að niðurskurður var tilkynntur til fjárlaganefndar. Enn eitt minnisblað berst síðan frá heilbrigðisráðuneytinu 21. nóvember þar sem sagt er að í svari ráðuneytisins gæti misskilnings „en þar er átt við áætlun um kostnað, ekki tímaáætlun“ og er þar vísað í orðin „byggingaráætlanir NLSH“ úr fyrra svari.

Ég skil ekki hvernig er hægt að sundurliða byggingaráætlun í annars vegar kostnaðaráætlun og hins vegar tímaáætlun þegar það er bara talað um byggingaráætlun. Þetta er sami hluturinn, þetta er sett saman í eitt. Þegar verið er að biðja um breytingar á byggingaráætlun er að sjálfsögðu verið að biðja um breytingar á tímaáætlun og kostnaðaráætlun. Það er ekkert hægt útskýra það eftir á: Nei, ég meinti bara kostnaðaráætlun. Það er algjört bull.

Þau gögn sem lágu fyrir fjárlaganefnd eftir 7. nóvember gáfu til kynna að hægri höndin vissi ekki hvað vinstri höndin var að gera, það var einfaldlega svo. Heilbrigðisráðuneytið, sem ber heildarábyrgð á verkefninu, samanber minnisblað sem við fengum með þessum svörum, gerði ekki ráð fyrir neinum breytingum á byggingaráætlun á meðan fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem lagði fram niðurskurðartillögur, hafði greinilega aðrar hugmyndir um byggingaráætlunina. Framkvæmdastjóri útskýrir síðan um viku seinna að það séu hliðranir í áætluninni þar sem kostnaður á árinu 2020 færist yfir á árið 2021. Í kjölfarið á því útskýrir heilbrigðisráðuneytið svo að kostnaðaráætlun verði í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið fram til þessa, ekki tímaáætlanir. Allt í lagi. Hver sem er sér auðvitað að tilfærsla á 3,5 milljörðum kr. á milli ára er breyting á kostnaðaráætlun, augljóslega, og þar af leiðandi byggingaráætlun. Það er nefnilega búið að gera fjármálaáætlun, sem við samþykktum á þingi, þar sem tekið er tillit til þátta eins og framleiðsluspennu og forgangsröðunar verkefna, sem er að vísu ekki nægilega vel skilgreint. En þetta er það sem maður vonar alla vega alltaf að liggi undir þegar verið er að taka svona ákvarðanir. Þegar maður sér í raun breytinguna gerast á þessum hraða og á þeim tíma sem um getur minnir maður aftur á að það þarf kostnaðar- og ábatagreiningu og það þarf forgangsröðun verkefna þannig að við getum séð hvernig þetta var fyrir og eftir og það komi okkur ekki á óvart. Auðvitað er það breyting á kostnaðaráætlun þegar 3,5 milljarðar eru færðir á milli ára í verkefninu. Þar af leiðandi standast þau rök heilbrigðisráðuneytisins ekki að þau hafi meint kostnaðaráætlun en ekki tímaáætlun.

Í kynningu ráðuneytis á þessari hringavitleysu kom fram að þessi tilfærsla hefði verið fyrirsjáanleg í langan tíma. Miðað við allt sem hér hefur verið rakið er það aðeins enn eitt atriðið sem þarf að gera athugasemd við, því að ekki er nóg með að þessi tilfærsla á verkefnum sé gerð á árinu 2020 til 2021 heldur koma 1,5 milljarðar í tafir, þ.e. lægri útgjöld, á árinu 2019 í frumvarpi til fjáraukalaga 2019. Það þýðir tilfærslu á verkefnum nýs Landspítala um 5 milljarða kr. á árunum 2019 og 2020 sem á að bæta upp á seinni árum framkvæmdaáætlunar. Það er dálítið streð að bæta við 5 milljörðum, myndi maður halda, á seinni tíma framkvæmdaáætlunarinnar. Þetta er ekki lítið hlutfall af heildarupphæðinni sem er verið að færa þarna á milli ára. Allt þetta kemur ekki fram fyrr en frumvarp til fjáraukalaga er lagt fram eða breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarp til fjárlaga 2020, þrátt fyrir að þetta hafi verið þekkt vandamál í langan tíma, eins og kom fram í kynningu ráðuneytis.

Í lögum um opinber fjármál kemur fram að það skuli, með leyfi forseta:

„… upplýsa hlutaðeigandi ráðherra án tafar um frávik frá rekstraráætlun, ástæður þeirra og hvernig fyrirhugað er að bregðast við þeim. Hlutaðeigandi ráðherra skal upplýsa forstöðumann innan 15 daga um afstöðu sína til fyrirhugaðra viðbragða.“

Til viðbótar skal hver ráðherra tilkynna fjármála- og efnahagsráðherra „um hugsanlega áhættuþætti og gera tillögur um hvernig brugðist verði við þeim. Ráðherra gerir ríkisstjórn og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum áhættuþáttum og tillögum um viðbrögð við þeim“.

Ef það er vitað með löngum fyrirvara að kostnaðaráætlunin standist ekki um 1,5 milljarða fyrir þetta ár og 3,5 milljarða fyrir næsta ár hefði maður haldið að maður ætti að fá að vita það fyrir 7. nóvember.

Annaðhvort vissu ráðuneytin því af þessum breytingum á byggingaráætlun í langan tíma og létu fjárlaganefnd ekki vita af því eða þá að þetta var ákveðið með stuttum fyrirvara til þess að láta afkomu áranna 2019 og 2020 líta betur út. Hvort tveggja er ámælisvert. Ef þessu er svo bætt við það sérstaka samband sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa við ráðherrana sína verður að spyrja þeirrar spurningar hvort þetta séu upplýsingar sem bárust einhverjum þingmönnum en ekki öðrum, það liggur í augum uppi.

Nú hefur verið fjallað þó nokkuð um málefni Íslandspósts að undanförnu og ýmislegt sem þarf að skoða varðandi hann. Það eru ákvarðanir um fjárfestingar, gjaldskrá, aðhaldsaðgerðir og eftirlit. Sá fortíðarvandi sem fyrirtækið glímir við ásamt breytingum á póstmarkaði gerir það að verkum að það er ákveðin skekkja fyrir næsta ár sem ekki er tekið tillit til í frumvarpi til fjárlaga. Þetta vitum við en samt samþykkjum við frumvarp til fjárlaga án þess. Á næsta ári hverfur einkaréttur Íslandspósts og við tekur alþjónustukvöð sem ekki er enn búið að kostnaðarmeta og því ekki búið að gera ráð fyrir vegna fjárlaga 2020. Fram kom á fundum nefndarinnar að vegna breytingar sem var gerð rétt áður en ný lög um póstinn voru samþykkt muni kostnaður vegna alþjónustu aukast um a.m.k. 100 millj. kr. Ýmislegt bendir til þess að alþjónustubyrðin hafi verið offjármögnuð á undanförnum árum sem birtist í þeim aðhaldsaðgerðum sem Íslandspóstur hefur nýlega gripið til, án þess að komið hafi til þjónustuskerðingar. Það þýðir einfaldlega að Íslandspóstur hefur verið í mjög slæmum rekstri og rukkað fyrir það í gegnum gjaldskrána, sem sagt rukkað notendur þjónustunnar of mikið til þess að standa undir óhagkvæmum rekstri sínum. Hvernig það mál verður leyst, hvað fjárheimildir varðar, verður áhugavert að sjá.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson minnti mig á Auðkenni. Mig langar að hafa örfá orð um þá tilhögun sem er að koma hérna fram. Það hefur lengi verið gagnrýnt að Auðkenni hafi verið skóflað í hendur einkaaðila en núna þegar kemur í ljós að það er tap á rekstrinum eða eitthvað svoleiðis þarf ríkið að taka við. Þetta er dæmigert, að ríkisvæða tapið o.s.frv. Ég ætla ekki að mótmæla því að auðkennisþjónusta eigi að vera hjá ríkinu en það sem er að gerast er aftur á móti mjög spes, bæði hvernig fyrirtækið varð til og svo hvernig núna er ekki hægt að reka það lengur þegar ekki er gróðamöguleiki þar.

Þá er það síðasta spurningin, það sem gerðist síðast í umfjöllun nefndarinnar. Síðasta spurningin sem fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins fengu í þessari umferð fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga 2020 var hvernig væri hægt að haga eftirliti með framkvæmd fjárlaga og ársskýrslu ráðherra miðað við ástand frumvarpsins með tilliti til laga um opinber fjármál. Við vorum eiginlega búin á fundinum og ég skellti inn einni spurningu í lokin, bara svona: Bíðið aðeins. Miðað við hvernig frumvarpið er statt, hversu ógagnsætt það er, miðað við lög um opinber fjármál, hvernig ekki er farið eftir þeim, eins og ég hef sagt ítrekað á undanförnum árum, hvernig getur þingið sinnt eftirlitshlutverki sínu við framkvæmd fjárlaga? Hvernig getur þingið fengið ársskýrslur ráðherra og séð eitthvað gáfulegt í þeim? Í ársskýrslum ráðherra á að meta þann ávinning sem fékkst af útdeilingu fjárheimilda til stefnu stjórnvalda til hinna ýmissa verkefna og þegar við fáum ekki að sjá hver kostnaðurinn er, hver áætlunin er, hvers vænst er að ábatinn verði, þá getum við ekki borið það saman við niðurstöðuna til að vita hvort vel tókst til eða ekki. Þegar við getum það ekki getum við heldur ekki orðið betri í því í kjölfarið. Við getum ekki lært af þeim mistökum sem voru gerð. Þetta vantar algerlega því að án þessara greininga er ekki hægt að fylgjast með framvindu mála í eftirliti og framkvæmd fjárlaga og ráðherra getur ekki lagt mat á þann ábata sem hlaust af stefnu stjórnvalda í ársskýrslu sinni.

Svörin við spurningunni voru ekki mörg, þau voru einfaldlega þögn á meðan fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins íhuguðu spurninguna. Þau vissu að þau áttu ekkert svar við henni svo að svarið var bara þögn. Mér fannst þetta vera eins og Þögnin í Doctor Who, fyrir þá sem hafa séð þá þætti, „The Silence“, eins og reglan kallast í þáttunum. Á meðan þú horfir á meðlimi Þagnarinnar veistu hvað er að gerast en um leið og þú lítur frá þeim ertu búinn að gleyma því, gleyma að þú sást þá, en þögnin lifir.

Ég veit ekki hversu oft ég búinn að minnast á þetta vandamál en það er eins og málið gleymist í hvert einasta skipti sem það kemur fram ný fjármálaáætlun eða nýtt fjárlagafrumvarp. Ráðuneytin gleyma þessu ár eftir ár. Alþingi gleymir þessu ár eftir ár. Við ýtum bara á takka, meiri hlutinn segir að þetta sé fínt og þeim sé alveg sama af því að meiri hlutinn stundar ekki eftirlit með framkvæmd fjárlaga, hann gerir það bara ekki. Öllum virðist vera slétt sama þó að ráðherrar fái risastóra upphæð fyrir málaflokkana sína án kostnaðaráætlunar, án forgangsröðunar, án nokkurs konar tilraunar til þess að upplýsa Alþingi um það til hvers hver ráðherra þarf allan þennan pening sem er verið að biðja um. Til hvers er verið að rukka fólkið í landinu um skatta? Ráðherrar skulda þingi og þjóð svar við þeirri spurningu.