150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mannréttindi birtast í fjárlagafrumvarpinu. Það kom augljóslega fram í umræðunni á undanförnum dögum þar sem ákveðið spillingarmál var grafið upp hjá íslensku fyrirtæki sem hefur sýnt fram á ákveðna möguleika á mútum og fleiru skemmtilegu og birtist í þeirri einsýnu stefnu, að því er virðist, að hunsa það álag sem það mál getur valdið á fjárlög ríkisins og fjárheimildir hvað þau varðar. Þá verður ekki annað séð á undanförnum árum en að það hafi markvisst verið grafið undan eftirliti og eftirlitsstofnunum, þeim stofnunum sem vernda réttindi okkar, einmitt með lægri fjárframlögum. Það sést á þeim lista sem þær stofnanir hafa og geta ekki klárað, á þeim fjölda frumkvæðisrannsókna sem umboðsmaður Alþingis er með en getur ekki lagt í. (Gripið fram í.) Það sést kerfislægt á þeim úrskurðarnefndum sem eru úti um allt kerfið og eiga að hjálpa okkur við að verja réttindi okkar og hversu langan tíma þær taka í að svara og klára málin sín. Þar er sýndarmennskan, hv. þingmaður, þegar fjármálaráðherra galar hægri, vinstri — og hver er í vinstri stjórn annars? svo maður minnist aðeins á það — þegar hæstv. fjármálaráðherra galar hægri, vinstri yfir þingsalinn að það eigi að velja eitthvert sérstakt mál til að sækja til saka o.s.frv. Nei, þetta snýst um hitt vandamálið. Hvernig er búið að grafa undan fjárheimildum eftirlitsstofnana okkar sem eiga að geta sinnt þessu en hafa ekki verið að gera það.