150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni ræðuna. Það er tvennt sem ég ætla að koma inn á í andsvörum, annars vegar hagstjórnarhlutverk ríkisfjármálanna sem hv. þingmaður fór nokkuð ágætlega yfir og hins vegar skilvirkni og hagræði í ríkisfjármálum.

Ég vík fyrst að hagstjórnarhlutverkinu. Hv. þingmaður segir að við höfum hitt óvart á réttan tímapunkt hagsveiflunni. Það er auðvitað ekki svo, virðulegi forseti, og það er ekki af neinni sjálfumgleði sem við erum að benda á þessa hluti. Fjárlaganefnd beitti sér fyrir því að taka inn fleiri hagspáraðila en bara Hagstofuna sem í lögunum er gert ráð fyrir að helst sé miðað við og þótti nauðsynlegt að endurskoða stefnuna. Ég ætla bara að orða það þannig að henni hafi þótt ástæða til að losa um þá spennitreyju sem fjármálaráð hafði ítrekað bent okkur á. Við þær erfiðu kringumstæður sem við erum í er ég sammála hv. þingmanni að það séu blikur á lofti. Við eigum að horfa mjög alvarlega á hagstjórnarhlutverkið þegar kemur að þessum þætti. Ég kalla það að bregðast rétt við að losa um þessa spennitreyju. Svo getum við deilt um hvernig hefði átt að fara með óvissusvigrúmið sem var byggt inn í stefnuna. Fjárlaganefnd beitti sér fyrir því að það væri tvöfaldað frá því sem upphaflega var ætlað, í 0,8% af vergri landsframleiðslu. Við sjáum þó að ríkissjóður gefur eftir af afkomu sinni og tryggir að áætlanir haldi svo ekki verði hjaðnandi hagvöxtur sem bitni á þjónustu og fjárfestingum meira en orðið hefði. Þannig geta tekjur og gjöld virkað með sjálfvirkum hætti (Forseti hringir.) við þessar aðstæður.