150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi ríkisstjórn var með það á stefnuskrá sinni að endurreisa fæðingarorlofskerfið vegna þess að það hafði gefið mjög mikið eftir. Framsóknarflokkurinn kom á fæðingarorlofi á sínum tíma. Það var þáverandi félagsmálaráðherra Páll Pétursson sem var ráðherra þegar það komst á og var það með framsæknasta fæðingarorlofskerfi sem þá var nokkurs staðar í heiminum. Ríkisstjórnin lagði upp með það á kjörtímabilinu að hækka greiðslur í fæðingarorlofi og lengja fæðingarorlofið. Það erum við að gera í þessu frumvarpi. Það er ekki nein ætlun um annað. Við værum ekki að mæla fyrir frumvarpi um lengingu í 12 mánuði og hækkun öðruvísi en að það væri ætlunin að standa við slíkt, enda styðja bæði fjárlög næsta árs og fjármálaáætlun við þessa fyrirætlan. Má til gamans geta þess að í lok kjörtímabilsins munu greiðslur sem tengjast fæðingarorlofi fara úr 10 milljörðum í 20 milljarða. Það er tvöföldun á tímabilinu sem rennur beint til fjölskyldna þessa lands. Þannig að svarið er mjög einfalt: Já, við ætlum okkur að lengja fæðingarorlofið og erum búin að hækka greiðslur. Við værum ekki að koma með þetta frumvarp fram ella.

Varðandi það hvort mögulegt sé að afgreiða þetta mál á svo skömmum tíma: Ég bind vonir við það. Það er auðvitað í höndum velferðarnefndar hvort hún er tilbúin til þess en ég bind vonir við að það verði mögulegt. Þetta frumvarp er búið að fara í gegnum samráðsgátt, var þar í tvær vikur. Síðan vil ég bara benda á að við ákváðum meðvitað að ráðast ekki í neinar breytingar núna aðrar en þessa lengingu vegna þess að í gangi er heildarendurskoðun laganna þar sem við ætlum að taka fyrir þau fjölmörgu álitamál sem hafa komið upp á undanförnum árum.