150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:37]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja varðandi það hvort stjórnarliðar muni allir samþykkja málið að í atkvæðagreiðslu um þetta mál líkt og öll önnur getur enginn sagt fyrir um það hvernig aðrir þingmenn greiða atkvæði nema þeir einstaklingar sjálfir. Hins vegar ber á það að líta að þetta mál er í stjórnarsáttmála. Framlagning þess var samþykkt í ríkisstjórn, það var samþykkt í þingflokkum, það er í lífskjarasamningi og ég hef ekki orðið var við neina þingmenn stjórnarliðsins sem hafa haft uppi efasemdir um samþykkt málsins.

Það barst fjöldinn allur af umsögnum um þetta mál og þær lutu einkum að því hvernig lengingunni yrði skipt og voru í rauninni á báða bóga hvað það snertir. Annars vegar varðandi það að auka þyrfti þann fjölda mánaða sem væri sameiginlegur og hins vegar að það væri hyggilegra að skipta orlofinu algerlega í tvennt, sex mánuði og sex, en ekki fimm, fimm, tveir.

Síðan ítreka ég það sem ég sagði í mínu fyrra andsvari. Málið er hér fram komið. Það er búið að fara í samráðsgátt þannig að mikið af þessum umsögnum liggja fyrir og nefndin mun væntanlega kalla þessa aðila beint til sín. En það er auðvitað undir nefndinni komið og undir Alþingi Íslendinga komið hvort það er tilbúið til að samþykkja þetta mál. Ég hef sagt það í öllum þeim málum sem ég hef lagt fram að ráðherrann leggur málið fram, það er hér komið til þingsins, þetta er hluti af lífskjarasamningi. Við ákváðum að fara í samráðsferli til að fá sjónarmið fram. Það er alltaf undir þinginu komið hvort það vill samþykkja mál frá ríkisstjórn eða ekki. Það er ekki í höndum ráðherrans nema bara með sínu atkvæði í þingsal. Sá sem hér stendur mun vera á græna takkanum og ég get upplýst formann velferðarnefndar um það.