150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það eru tvö atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um og ætla ég að koma að því fyrra í þessu fyrra andsvari mínu. Mér sýnist frumvarpið að öllu leyti í samræmi við eða falla innan tillagna starfshóps sem skilaði af sér í mars 2016 um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum, væntanlega til fyrri félagsmálaráðherra, velferðarráðherra í þessu tilviki. Nú sér maður í greinargerð með frumvarpinu þar sem er farið í gegnum þær athugasemdir sem bárust að af 26 umsögnum er 21 frá einstaklingum og eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Þær athugasemdir sem komu frá einstaklingum lutu einkum að því að lengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs fremur en lengja rétt hvors foreldris fyrir sig líkt og frumvarpið kveður á um. Voru færð ýmis rök fyrir þeirri tilhögun, þar á meðal að aðstæður fjölskyldna væru mismunandi, svo sem fjárhagslega, að tillaga frumvarpsins um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra fæli í sér of mikla forræðishyggju ríkisins og að taka yrði tillit til líffræðilegra þátta sem tengjast mæðrum.“

Þetta voru þau sjónarmið sem komu fram í 21 umsögn einstaklinga sem bárust í samráðsgáttina. Mér heyrðist hæstv. ráðherra svara því til hér í fyrra andsvari að valkostirnir hefðu frekar verið að skipta mánuðunum í sex og sex, njörva þetta alveg niður á kyn. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða valkostir komu til greina aðrir en tillaga stýrihópsins um að skipta fimm, fimm, tveir? Var eini valkosturinn sem kom til skoðunar skipting mánaða í sex og sex að fullu á milli móður og föður, eða kom til greina (Forseti hringir.) að skiptingin yrði þannig að það yrði meira óráðstafað á milli foreldra?