150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:42]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Þarna takast á ólík sjónarmið. Annars vegar hvort skipta eigi þeim 12 mánuðum sem við ætlum í fæðingarorlofi alveg sex og sex á hvort foreldrið eða að hafa aukinn sameiginlegan rétt eins og þingmaðurinn vitnar til. Það sem ég var að benda á áðan er að farin var sú leið að hafa þetta fimm, fimm, tveir en umsagnirnar sem bárust voru í rauninni annars vegar þær sem mér heyrist þingmaðurinn vitna til, að það eigi að hafa meira val, fara jafnvel niður í fjórir, fjórir og fjórir eða eitthvað slíkt, og hins vegar að það eigi að vera bara sex mánuðir og sex sem mátti heyra t.d. hjá formanni velferðarnefndar hér áðan sem var að vitna til umsagnar frá BSRB og fleiri.

Mér sýnist að þessi tillaga um fimm, fimm og tvo mánuði sem var fundin út í nefndinni á sínum tíma, árið 2016, sé nokkuð góð málamiðlun á milli ólíkra sjónarmiða. Gagnrýnin á málið inni í samráðsgáttinni snýst ekki um það hvort við séum að lengja fæðingarorlof. Hún kemur úr báðum áttum hvað þetta snertir. Þess vegna töldum við, m.a. í ljósi þessa, að skynsamlegt væri að leggja málið fram með þessum hætti, að halda okkur við það sem lagt var fram í frumvarpsdrögunum sem var fimm, fimm, tveir. Ég bendi jafnframt á að það stendur fyrir dyrum og er í gangi endurskoðun á fæðingarorlofskerfinu í heild sinni, bæði fæðingarorlofinu og fæðingarstyrknum, í nefnd sem nú er starfandi. Meiningin er að hún skili af sér á vordögum svo hægt verði að koma með frumvarp á næsta þingi, sem lýtur að því að skoða hin ýmsu álitamál, bæði hvað þetta snertir og eins samspilið við dagvistun, leikskóla og annað. Að sjálfsögðu eru þessi mál þar undir.

Niðurstaðan varð sú að gera þetta með þessum hætti og ég held að það sé bara jákvæð niðurstaða og málamiðlun. (Forseti hringir.) En um þetta eru skiptar skoðanir og það verður þá að greiða atkvæði um það í þingsal ef menn hafa ólíka sýn á það.