150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Sá sem hér stendur væri nú í þessum efnum fylgjandi leik kerfinu núll, núll, tólf en til vara þrír, þrír, sex þannig að öll viðbótin sem hér um ræðir færi í þann hluta sem foreldrar geta skipt á milli sín. Það eru auðvitað margur samfélagsverkfræðingurinn sem vill stýra því hvernig mál þróast en ég kem inn á það í ræðu minni hér á eftir og ætla að færa rök fyrir því að þetta sé skynsamlegt fyrir samfélagið í heild sinni.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að það væru viðræður fram undan sem sneru að því með hvaða hætti dagvistun barna gæti tekið við við 12 mánaða aldur. Það kemur einmitt fram í tillögu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum annars vegar og síðan í greinargerðinni hins vegar að það sé mikilvægt í þessu samhengi að dagvistun barna taki við í eðlilegu flæði í kjölfar fæðingarorlofs. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji hina miklu bindingu niður á hvort foreldri fyrir sig — fimm, fimm, tveir eins og við köllum það hér, að fimm mánuðir fylgi móður, fimm fylgi föður og tveir séu til skiptanna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir — vænlega til árangurs hvað það varðar að hafa sem minnst bil að brúa frá því að töku fæðingarorlofs lýkur þar til dagvistunarúrræði geta tekið við. Þá eru auðvitað uppi mismunandi sjónarmið landið um kring hvað þær lausnir varðar sem bíða.