150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:46]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði er þetta undir í þeirri vinnu sem nú er í gangi og lýtur að endurskoðun fæðingarorlofslaganna í heild sinni. Þar er staðan mjög ólík eftir sveitarfélögum allt í kringum landið. Það sem komið hefur fram í samtölum okkar við Samband íslenskra sveitarfélaga er að meiri hluti sveitarfélaga á landinu er að vinna í því eða hyggst á næstunni lækka inntökualdur á leikskóla en því miður býr minni hluti barnanna í þessum sveitarfélögum. Það eru smærri sveitarfélögin sem eru komin lengra hvað þetta snertir. Það er áskorun sem við þurfum að taka sem samfélag í heild og í samtali við sveitarfélögin vegna þess að það er auðvitað þeirra að tryggja þá þjónustu. Þar kann vel að vera að gerðar verði einhverjar breytingar eða tekin upp önnur nálgun. Þar hafa menn líka verið að tala um að hugsanlega sé skynsamlegt að miða þetta við haustið, að tekið sé inn á haustin en ekki eftir nákvæmum fæðingardegi barns. Öll þessi vinna er undir í þessari heildarendurskoðun og það er ekkert hægt að segja hvaða niðurstaða kemur út úr henni.

Ég hlakka til að hlýða á ræðu hv. þingmanns hér á eftir þar sem hann mun færa rök fyrir sínu máli. Þó vil ég segja að það góða við þessar deilur er að við erum að færa rök fyrir því hvort þetta eigi að vera fimm, fimm, tveir eða sex mánuðir og sex eða þrír, þrír, sex eða hvernig sem það er. Ástæðan fyrir því að við getum deilt um þetta er sú að við erum með svo góða ríkisstjórn í þessu landi að hún er að lengja fæðingarorlofið. (Gripið fram í.) Hún er að stuðla að því að tekið verði upp 12 mánaða fæðingarorlof. Við erum að endurreisa fæðingarorlofskerfið. Það gefur þingheimi og þingmönnum tækifæri til þess að takast á um það með hvaða hætti það verði gert. En það er ríkisstjórnin sem er að koma því til leiðar að lengja fæðingarorlofið. Við getum síðan tekist á um einstaka útfærslur á því. (Forseti hringir.) Ég er gríðarlega stoltur af því að vera hluti af þeirri ríkisstjórn sem er að stíga þetta mikla skref núna eftir að við erum búin að hækka greiðslurnar fyrr á kjörtímabilinu.