150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[19:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna heils hugar þessu frumvarpi sem hefur loksins litið dagsins ljós en frumvarpið var boðað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í desember 2017, fyrir tæpum tveimur árum, og var samið um það í lífskjarasamningum sem gerðir voru í apríl sl. Nokkuð hefur því dregist að bera þetta ágæta frumvarp inn í Alþingishúsið. Hefur sú sem hér stendur, sem gegnir tímabundið formennsku í hv. velferðarnefnd, kallað mjög eftir því á fundum með forseta Alþingis, enda var fyrirséð að um væri að ræða svokallað dagsetningarfrumvarp sem á að taka gildi um áramótin. Það vekur furðu að það hafi tekið frumvarpið sem er ekki sérstaklega flókið í sniðum allan þennan tíma, þ.e. frá desember 2017 til nóvemberloka 2019, að berast hingað. Þegar fulltrúar félagsmálaráðuneytis sem mættu fyrir hv. velferðarnefnd voru spurðir út í vinnuálag þar innan húss á fundi nefndarinnar í gær áttaði ég mig á því að álag á starfsfólki félagsmálaráðuneytisins er umtalsvert og ekki til fyrirmyndar. Það kann að skýra að þetta frumvarp kemur inn í samráðsgátt um miðjan októbermánuð, rétt fyrir áramót, fær að hvíla þar í tvær vikur og er skutlað inn á þing þar sem augljóslega er ekki gert ráð fyrir vandaðri vinnu við setningu laganna.

Ég verð að segja enn einu sinni úr þessum ræðustól að mér þykir þetta ekki merki um fagleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar vegna þess að ég aðhyllist vandaða lagasetningu og til þess að hún geti verið vönduð þarf hún að fá almennilega umfjöllun í nefndum. Þetta er þriðja frumvarpið sem kemur frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra á örfáum vikum sem á að afgreiða fyrir áramót. Í hverri viku eru tveir nefndarfundir og venjulega er gefinn þriggja vikna umsagnarfrestur í svona málum. Ég verð því að segja að mér finnast þetta fullkomlega óboðleg vinnubrögð.

Að því sögðu fagna ég frumvarpinu. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti algjörlega sambærilegt frumvarp árið 2012. Þar var talað um fyrsta áfanga sem átti að vera tíu mánuðir, annan áfanga sem átti að vera 11 mánuðir og þriðja áfanga sem átti að vera 12 mánuðir. Þetta átti að vera fyrir löngu komið í gagnið, enda hafði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur þá tekið til eftir hrunið. Fyrsta verk ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá í Framsóknarflokknum, og Sjálfstæðisflokks var að breyta þessu, afturkalla þessa lengingu, og var það í desember 2013. Var það lagt fram af núverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Auðvitað fögnum við þingmenn Samfylkingarinnar þessari löngu tímabæru lengingu. Aftur ætla ég samt að segja að það hryggir mig að hv. velferðarnefnd eigi núna að horfa fram hjá þeirri nauðsyn að vanda til verka, ekki síst þegar ég horfi á þær 27 umsagnir sem hvíla í samráðsgáttinni, og þó var samráðið í mýflugumynd af því að umsagnarfresturinn þar var bara tvær vikur. Þá verð ég líka að segja að mér finnst eiginlega algjörlega óboðlegt af hæstv. félags- og barnamálaráðherra að segja að hv. velferðarnefnd geti bara leitað umsagna í samráðsgátt stjórnvalda. Alþingi er löggjafarvaldið. Alþingi á að vinna þessa vinnu, kalla eftir umsögnum frá umsagnaraðilum o.s.frv. Það er fyrir neðan allar hellur að virða ekki þetta hlutverk Alþingis. Hvað er hér undir? Þau börn sem fæðast á árinu 2020 eru öll hér undir og allir þeir foreldrar sem eignast börn á næsta ári eru hér undir. Þess vegna verður að vanda til verka. Um hvað erum við að tala hérna? Í umsögn BSRB er einmitt bent á þetta, með leyfi forseta:

„Stutt er til 1. janúar 2020 og líklegt er að einhverjir verðandi foreldrar hafi þegar skipulagt orlofstöku sína miðað við núgildandi reglur um þrjá mánuði á hvort foreldri og þrjá mánuði til skiptanna.“

Vissulega fagna því allir að það eigi að lengja fæðingarorlofið en við skulum gera ráð fyrir því að þeir sem eru að fara að taka þetta fæðingarorlof eftir áramót séu búnir að skipuleggja sig. Við erum að tala um eftir rétt rúman mánuð. Þetta er fólk á vinnumarkaði, þetta er fólk í námi og þetta er líka fólk sem á sáralítinn rétt. Það er líka þess vegna, herra forseti, sem þessi framkoma gagnvart öllu þessu fólki er algjörlega óboðleg. Maður þarf að tilkynna vinnuveitanda sínum hvernig maður ætlar að ráðstafa fæðingarorlofi sem hefst mögulega eftir rúman mánuð. Hvers lags framkoma er þetta? BSRB hefur áhyggjur af þessu og ég verð að taka undir þær áhyggjur.

Það er mjög gott að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að skýrslu um fæðingarorlof var skilað inn 2016 og upp úr henni átti að vinna einhvers konar áætlun um hvernig ætti að lengja fæðingarorlofið. Sitt sýnist hverjum um fyrirkomulagið og er meginþorri þeirra umsagna sem komu inn í samráðsgáttina um það, einmitt þetta með skiptinguna, hvort það eigi að hafa drjúgan hluta sameiginlegan eða ekki. Það er alveg ljóst af umsögnunum að um það eru mjög skiptar skoðanir. Sumir eru á því að foreldrar eigi algjörlega að fá að ráða því sjálfir. Hins vegar benda þeir sem hafa kynnt sér hvernig best hefur tekist varðandi fæðingarorlofið og foreldraorlofið, þeir sem eru best að sér í fjölskyldustefnu til hagsbóta fyrir fjölskyldur og í þágu barna, m.a. í umsögnum í samráðsgátt, á að ekki eigi að skipta þessu á milli, að ekki eigi að hafa þetta sameiginlegt þannig að það sé eitthvert val.

Ég sé umsögn í samráðsgátt frá Ingólfi V. Gíslasyni, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands, og Guðnýju Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, sem eru eldri en tvævetur í þessum fræðum. Þau eru bæði mjög reynd og þau benda á að reynslan sýni að í langflestum tilvikum þar sem er sameiginlegur réttur sé hann nýttur af mæðrum eingöngu. Ég held að við getum alveg verið sammála því að með því að merkja ákveðinn hluta fæðingarorlofs hinu foreldrinu er verið að tryggja barninu umgengni og samvistir með báðum foreldrum. Tilhneiging virðist vera til þess út frá fjárhag og félagslegum aðstæðum að móðirin taki allt fæðingarorlofið. Þá tækjum við mörg skref aftur á bak. Rannsóknir á reynslu á Norðurlöndunum af fæðingarorlofi sýna þetta, allt frá því að Svíar innleiddu slíkt orlof árið 1974, eins og kemur fram í þessari umsögn. Feður nota hins vegar í miklum meiri hluta tilvika óframseljanlegan rétt sinn til fæðingarorlofs og er það mjög gott af því að þetta hefur breytt hlutverki feðra og þá einnig foreldra. Ég hef hins vegar áhyggjur af því, og það kom svo sem fram í máli hæstv. félagsmálaráðherra áðan, að ekki er hugað nógu vel að barninu sjálfu. Ég er fullviss um að við verðum að mæta þeim börnum sem ekki eiga möguleika á samvistum við báða foreldra sína. Þar er m.a. um að ræða börn sem eiga bara eitt foreldri. Þau eru til. Vegna tæknifrjóvgunar eiga börn lagalega séð bara eitt foreldri. Svo getur líka verið ákveðinn ómöguleiki til staðar, t.d. sá ómöguleiki að hitt kynforeldrið sé horfið, að það finnist ekki, en jafnframt getur einfaldlega verið til staðar sá ómöguleiki að íslensk stjórnvöld meini kynforeldri að dvelja á Íslandi. Þá hafa íslensk stjórnvöld með löggjöf eins og þessari — þar sem er algjörlega bundið hvort foreldrið má nota hvaða hluta fæðingarorlofs — komið í veg fyrir að barn í slíkum aðstæðum, þar sem ekki er um að ræða báða foreldra, njóti jafn mikillar samveru með foreldri sínu og þau börn sem eiga þess kost að njóta samveru með báðum foreldrum sínum. Þetta er algjörlega ómögulegt, það er ekki boðlegt að stjórnvöld gangi á rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína.

Einmitt út af þessu, herra forseti, er algjörlega óboðlegt að fá þetta frumvarp inn eins og það er núna. Hvers vegna er ekki hægt að gera þetta fullnægjandi? Hvers vegna er ekki hægt að koma með frumvarp sem tryggir rétt allra barna? Mér finnst þetta alveg ömurlegt. Um leið og maður fagnar því að verið sé að lengja kemur hæstv. ráðherra og segir að það sé undir þinginu komið ef það ætli ekki að samþykkja þetta. Hann er með ákveðnar hótanir. Auðvitað samþykkjum við lengingu á fæðingarorlofi en þingmálið sem hæstv. ráðherra mælir fyrir tveimur vikum fyrir þinghlé er fullkomlega óboðlegt. Mér finnst ótrúlega sorglegt að ekki sé hægt að standa betur að þessu, enda mikilvægt mál.