150. löggjafarþing — 35. fundur,  26. nóv. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[20:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Loksins, loksins er í mörgum skilningi komið fram þetta ágæta þingmál. Segja má að við séum hér í töku tvö í því að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Það er gaman að segja frá því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur staðið að báðum þeim ríkisstjórnum sem hafa tekið ákvarðanir um þessi skref. Það er sérstakt fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli með þessu móti standa við ákvæði stjórnarsáttmálans um lengingu fæðingarorlofsins og í rauninni er bara betra að þetta skuli líka vera hluti af lífskjarasamningunum. Það styrkir þann grunn sem er undir þessari ákvörðun stjórnvalda.

Hins vegar er ekki hægt annað en að gagnrýna, eins og raunar fleiri þingmenn hafa gert hér, hversu seint málið kemur til þingsins. Það er afar óþægilegt að vera í þeirri stöðu að bíða eftir því að frumvarpið komi fram, m.a. fyrir foreldra sem vænta þess að börnum þeirra og þeim sjálfum muni bjóðast tíu mánaða fæðingarorlof á næsta ári en vera samt ekki alveg viss fyrr en að málið verður klárað í þinginu. Ég veit ekki hvaða ástæður liggja að baki því, hvort þar sé um að kenna álagi í ráðuneytinu eða hvort það er eitthvað annað, en það er ekki hægt annað en að nefna þetta. Það breytir hins vegar ekki því að ég held að sá einlægi vilji minn og væntanlega mjög margra þingmanna að klára málið fyrir áramót muni ná fram að ganga og ég held að það sé afar mikilvægt. Sem betur fer er góð samstaða um þetta mál í samfélaginu, þ.e. um lenginguna sjálfa. Það kunna að vera einhvers konar blæbrigði á því með hvaða hætti menn vilja standa að þeirri lengingu. Það er að mörgu leyti áhugavert að sjá mismunandi sjónarmið í því. Þau þrjú meginsjónarmið sem helst hafa heyrst eru hið svokallaða fjórir, fjórir, fjórir sjónarmið, þ.e. að fjórir mánuðir séu ætlaðir hvoru foreldri og síðan hafi þau val um hvernig fjórum sé skipt á milli. Svo er það fimm, fimm, tveir, þ.e. að hvoru foreldri séu ætlaðir fimm mánuðir en tveir mánuðir séu valkvæðir eða þau geta ákveðið sín á milli með hvaða hætti þau skipta þeim. Í þriðja lagi er leiðin sem til að mynda BSRB og Bandalag háskólamanna nefndu, að fara svokallaða sex, sex, núll leið, sem myndi þá væntanlega þýða fimm, fimm, núll um þessi áramót ef menn ætluðu að fara þá leið.

Ég er hins vegar á því að a.m.k. í bili sé sú ákvörðun sem er tekin, þ.e. að fara fimm, fimm, tveir leiðina, góð millilending á milli þessara tveggja ýtrustu sjónarmiða — ég ætla ekki að segja öfga — og að hún muni duga vel. Hins vegar er áframhaldandi verkefni í því sem heitir stuðningur samfélagsins við verðandi foreldra, unga foreldra eða nýja foreldra. Það er ekki lengur þannig að öll foreldri þurfi endilega að vera ung. Þær áhyggjur koma kannski gleggst fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. að við sem samfélag þurfum að fara að ákveða með hvaða hætti við ætlum að brúa þetta svokallaða umönnunarbil sem oft hefur verið talað um, bilið frá því að lögbundnu fæðingarorlofi lýkur og þangað til barn getur fengið leikskólapláss. Eins og hv. þingmenn þekkja hafa foreldrar brúað þetta bil með alls konar ráðum, stundum með dagforeldrum, stundum með því að draga úr vinnu tímabundið, annað hvort eða bæði, eða þá í einhverjum tilfellum að ættingjar, oft afar og ömmur, hafa getað hlaupið í skarðið. Þetta hefur átt við stöðu allra síðustu misseri, ég tala nú ekki um lengra aftur í tímann, en samfélagið er að breytast. Við erum ekki lengur í þeirri stöðu að við getum treyst á að kynslóðirnar komi saman og bjargi þessum málum. Það er í rauninni samfélagslegt verkefni að takast á við þetta.

Sem betur fer eru sveitarfélögin byrjuð að taka við sér og a.m.k. sum sveitarfélögin hafa sett sér metnaðarfull markmið í því að lækka þann aldur þegar börnum standa til reiðu leikskólapláss. Því miður er það þannig í sumum sveitarfélögum að börn geta í stöku tilfellum þurft að bíða allt upp í tveggja ára aldur eftir að fá pláss á leikskóla. Það þarf engan vísindamann til að sjá að þá er bil á milli lögbundna fæðingarorlofsins og tveggja ára aldursins sem getur verið mjög óheppilegt fyrir fólk.

Í máli þingmanna hefur komið fram að tíminn sem við höfum sé of skammur. Hann er það vissulega, það er ekki hægt að deila um það. Á hinn bóginn hafa væntanlega allir haghafar sem kynnu að hafa skoðun á málinu gert sér grein fyrir því að þetta mál væri á leiðinni í þingið. Einhverjir þeirra hafa sent umsagnir inn í samráðsgátt stjórnvalda. Það er talið upp í greinargerðinni, fimm samtök eða sveitarfélög og síðan hópur einstaklinga. Ég geri ráð fyrir að flestir aðilar vinnumarkaðarins séu búnir að móta sér skoðun á því hvernig þeir vilja hafa þetta mál því að eins og hefur komið fram er þetta hluti af lífskjarasamningunum, það er nánast búið að klappa það í stein að þetta verði samþykkt og er hluti af þeim kjarabótum sem var samið um í vor. Þess vegna tel ég að þrátt fyrir tímapressuna eigi þingið að geta unnið þetta hratt og vel. Ég mun a.m.k. leggja mig fram um að gera allt sem ég get til að við getum klárað þetta mál á þeim tíma sem við höfum fram að þingfrestun.

Eins og hefur komið fram í máli fleiri þingmanna er málið í sjálfu sér ekki flókið en þarna hafa þegar verið nefnd nokkur atriði sem þingnefndin þarf að velta fyrir sér og taka tillit til. Jafnvel þótt við tækjum ákvörðun sem þingnefnd eða sem þing um að gera minni háttar breytingar á þeim þáttum frumvarpsins sem snúa að þessum jöðrum sem ég nefndi er það ekki flókin aðgerð þannig séð og yrði aldrei sérlega flókin með tilliti til þeirrar stöðu sem er uppi í dag. Sú breyting, ef af yrði, hefði væntanlega meiri áhrif á árinu 2021 og þeir aðilar sem fjallað er um í frumvarpinu hefðu þá þann tíma til að undirbúa sig. Það er a.m.k. ekki búið að ákveða með öll þau börn sem kunna að fæðast á árinu 2021. Við getum nokkurn veginn gefið okkur að þegar þær ákvarðanir verða teknar muni endanleg lög liggja fyrir.