150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni gerum nú lokatilraun til að bæta þessi fjárlög fyrir árið 2020. Við gerum tillögu um að Fiskistofa verði styrkt svo að hún geti betur sinnt eftirliti með fiskveiðiauðlindinni. Embætti skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara munu ekki geta brugðist við auknu álagi vegna Samherjaskjalanna nema þingið samþykki tillögu Samfylkingarinnar um viðbótarfjármagn. Það er innantómt hjal að ríkisstjórnin muni sjá embættunum fyrir fjármunum og til þess fallið að draga tennurnar úr rannsókn á skjölunum, enda er þingið fjárveitingavaldið og varasjóðir sem til eru eru ætlaðar til þess sem er ófyrirséð og gæti komið óvænt upp á árinu 2020. Réttmæt krafa um að enginn sé undir lágmarkslaunum er studd með tillögu frá Samfylkingunni, Pírötum og Flokki fólksins. Ég hvet hv. þingmenn til að greiða þessum mikilvægu og nauðsynlegu tillögum atkvæði sitt.