150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Næstsíðustu fjárlög ríkisstjórnarinnar verða samþykkt á eftir og myndin er orðin býsna skýr. Sú tilraun að mynda stjórn tveggja mjög eðlisólíkra flokka hefur mistekist, kannski vegna þess að það þurfti að gera svo miklar málamiðlanir, kannski vegna þess að hún er hugmyndasnauð en líklega hvort tveggja. Með fjárlögunum er gerð nánast engin tilraun til að ráðast gegn ójöfnuði. Það er ekki stigið nægilega fast niður þegar kemur að aðgerðum gegn loftslagsvánni og ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að mæta þeirri spennandi framtíð sem bíður okkar á næstu árum.