150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér kemur hver silkihúfan upp af annarri og segir að við séum að fara að greiða atkvæði um góð fjárlög. (Gripið fram í: Frábær.) Ríkisstjórnin ætlar samt sem áður að halda áfram að hanga á handónýtu almannatryggingamannvonskukerfi sem fáir eða enginn skilur. Veikt, gamalt fólk bíður í hrönnum eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili. Stjórnvöld skattleggja fátækt grimmt og skerða kinnroðalaust þá sem veikast standa. 12–15% barna líða mismikinn skort, grunnþörfum borgaranna er ekki mætt, fólk skortir fæði, klæði, húsnæði. Viljaleysi ríkisstjórnarinnar er algjört þrátt fyrir þunga undiröldu og kröfu um aukið réttlæti til handa þeim sem eru langt, langt undir fátæktarmörkum. Það er kaldhæðnislegt að ríkisstjórnin skuli státa af fordæmalausu góðæri á sama tíma og hún neitar fátæku fólki um réttlæti.