150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það mætti halda af umræðunni hérna að eftirlits- og rannsóknarstofnanir fái engar fjárheimildir í fjárlögum ársins 2020. Það er hins vegar alls ekki svo. Í frumvarpinu er nú þegar gert ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun til embættis ríkisskattstjóra vegna aukins skatteftirlits og þau framlög hafa, vegna þess að það er þörf á því, verið að hækka frá árinu 2017. Það eru því fjárheimildir í fjárlagafrumvarpinu eins og það stendur. Að auki er búið að fara hér yfir það hvernig tryggja megi meira fjármagn sem þær eftirlits- og rannsóknarstofnanir kunna að þurfa í framhaldinu. Ég tel þess vegna enga ástæðu að sinni til að gera frekari breytingar. Það er verið að gera ýmislegt í þeim málum.