150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Af skýrslu ríkisendurskoðanda um eftirlit Fiskistofu með fiskveiðiauðlindinni er ljóst að eftirlit með vigtun sjávarafla er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri. Eftirlit með brottkasti er veikburða og ómarkvisst og ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum séu í samræmi við það hámark sem skilgreint er í lögum. Fyrir tveimur árum var viðtal við fiskistofustjóra í fréttaþættinum Kveik og þar sagði hann að Fiskistofa gæti ekki vegna fjárskorts sinnt lögbundnu hlutverki sínu og að sjávarútvegsráðuneytinu væri það ljóst.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessari alvarlegu greiningu eru að hækka framlög til Fiskistofu um 1,7% sem er undir verðbólguviðmiðinu. Ríkisstjórnin leggur til raunlækkun til eftirlitsins með fiskveiðiauðlindinni á næsta ári. Það gengur náttúrlega ekki. Ég vona að hv. stjórnarþingmenn (Forseti hringir.) sjái það og fari af rauðu yfir á grænt. Það er enn tími.